Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skilur ákvörðun Helga Hrafns og Smára

26.09.2020 - 18:18
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis.
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis. Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata segist skilja þá ákvörðun Helga Hrafns Gunnarssonar og Smára McCarthy að sækjast ekki eftir endurkjöri í næstu alþingiskosningum. Engum þingmanni sé hollt að sitja of lengi og sjálf geti hún ekki hugsað sér að sitja lengur en eitt kjörtímabil í viðbót.

Helgi og Smári tilkynntu um ákvörðun sína í aðdraganda aðalfundar Pírata sem hófst í dag. Þeir segjast báðir ætla að starfa áfram innan Pírata og segjast ekki vera hættir afskiptum af stjórnmálum.

Halldóra segir að við stofnun flokksins hafi alltaf verið rætt um að þingmenn sætu ekki mörg kjörtímabil á þingi.

„Það er náttúrulega eftirsjá að þeim en ég skil þetta mjög vel. Það er alltaf hætta á að þegar maður fer inn í þessa maskínu sem þingið er að það hefur áhrif og breytir manni. Þannig að ég held að það sé engum hollt að vera of lengi þarna. Ég sjálf finn það að ég myndi ekki vilja vera mikið lengur heldur en eitt kjörtímabil í viðbót, það er alveg nóg,“ segir Halldóra.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV