Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sigmundur Davíð: „Kerfið stjórnar ríkisstjórninni“

26.09.2020 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni var tíðrætt um „kerfið“ og „báknið“ þegar hann ávarpaði flokksráðsfund Miðflokksins í dag. Hann sagði kerfið stjórna ríkisstjórninni og ráðherrar væru leppar kerfisins. „Frumvörp sem ráðherrar eru látnir leggja fram sýna þetta.“ Hann sagði núverandi ríkisstjórn hafa verið myndaða um stöðugleika og afleiðingin væri sú að „kerfið stjórnar og vald þess hefur aldrei verið meira en nú.“ Aðeins væru tveir flokkar á Alþingi - Miðflokkurinn og allir hinir.

Sigmundur ávarpaði flokksmenn í gegnum fjarfundabúnað vegna kórónuveirufaraldursins.

Hann skaut föstum skotum á ríkisstjórnina, sagði hana hafa verið mynduð um ráðherrastóla og þeim síðan skipt á milli flokka.  „Stjórnin snýst líka um útdeilingu gæða til réttra aðila,“ og ráðherrastólar væru nýttir til að færa gæðin í rétta átt. „Og kerfið leggur línurnar.“

Framsóknarflokkurinn réði bara framsóknarmenn inn í kerfið og Vinstri hreyfingin grænt framboð bara félagsmenn í VG „en virðast líka leggja áherslu á að ráða allskonar krata,“ sagði Sigmundur. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu síðan lýst því að þeir fengju velgju og uppköst en þyrftu bara að kyngja. 

Hann sagði tugum milljarða vera hent í tískuverkefni „og þessi ríkisstjórn stjórnar ekki kerfinu - kerfið stjórnar ríkisstjórninni. “ Ráðherrar væru leppar kerfisins og frumvörp sem ráðherra væru „látnir leggja fram sýna þetta.“

Sigmundur setti líka spurningarmerki við breytingar á stjórnarskránni og sagði það vekja athygli hversu mikla áherslu „kerfið leggur á að breyta svokölluðu fullveldisframsali til að auðvelda að framselja vald til erlendra stofnana. Það hefur hvarflað að manni að þetta sé megintilgangur þessara breytinga.“

Mikilvægt væri að breytingarnar væru gerðar í víðtækri samstöðu þannig að stjórnarskráin væri samfélagssáttmáli sem allir vildu starfa eftir.

Hann sagði að núna væri rétti tíminn til að taka á „bákninu“ því gera þyrfti almenningi og fyrirtækjum kleift að búa til ný tækifæri. Kerfið væri uppfullt af hindrunum sem gerði fólki þetta erfitt.  Hið opinbera ætti að vera í þjónustuhlutverki og kerfið ætti að þjónusta borgaranna en ekki öfugt.

Sigmundur sagði Miðflokkinn ætla að verja grundvallargildi Íslands og vernda menningararfinn. Hann talaði fyrir umræðufrelsi og að allar skoðanir ættu að fá að heyrast. Stjórnmálin væru að þróast í hættulega átt og grundvallargildi væru í hættu vegna þess sem hann kallaði ímyndarstjórnmál.  „Það eru bara tveir flokkar á Alþingi - Miðflokkurinn og allir hinir.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV