Rok og rigning þegar Þróttur sigraði Selfoss

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Rok og rigning þegar Þróttur sigraði Selfoss

26.09.2020 - 16:18
Fyrsti leikur dagsins í Pepsi Max deild kvenna fór fram í roki og rigningu þegar að Þróttur R. heimsótti Selfoss.

Selfoss lék án þriggja sterkra leikmanna í dag þar sem bæði Hólmfríður Magnúsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir eru farnar út í atvinnumennsku. Þá var Dagný Brynjarsdóttir einnig frá í dag vegna meiðsla. 

Á 25. mínútu leiksins náðu gestirnir forystunni með marki Alice Vignola, hún fékk þá glæsilega stungusendingu frá Stephanie Ribeiro og skoraði framhjá Kaylan í marki Selfoss. Ribeiro sá svo sjálf um að skora næsta mark og gestirnir því komnir tveimur mörkum yfir á 43. mínútu. Ekki þurfti að bíða lengi eftir næsta marki því aðeins tveimur mínútum síðar var Alice Vignola aftur á ferðinni og Þróttur Reykjavík því með þremur mörkum yfir þegar að flautað var til hálfleiks. 

Heimakonur náðu að minnka muninn á 65. mínútu eftir hornspyrnu. Barbára Sól náði þá fínum skalla en boltinn hafnaði í slánni og eftir mikið klafs í teignum náði Tiffany McCarty að ýta boltanum yfir línuna. Ekki urðu mörkin fleiri í leiknum og Þróttur tryggði sér þarna þrjú gríðarlega mikilvæg stig í fallbaráttunni.