Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kynferðisbrotamál starfsmanns grunnskóla fellt niður

Mynd með færslu
Hraunvallaskóli í Hafnarfirði. Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Mál starfsmanns Hraunvallaskóla, sem var grunaður um kynferðisbrot gegn tveimur börnum, hefur verið fellt niður. Þetta staðfestir Unnsteinn Örn Elvarsson, verjandi mannsins, í samtali við fréttastofu.

Unnsteinn segir að einhverjar vikur séu síðan málið var fellt niður. Það sé ekki í höndum ríkissaksóknara og því sé líklegt að það sé úr sögunni. Hann segist ekki geta svarað því hvort maðurinn ætli að krefjast þess að fá starf sitt aftur þar sem hann viti ekkert um það. 

Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald en leystur úr haldi skömmu síðar eftir að Landsréttur felldi úrskurð Héraðsdóms Reykjaness úr gildi.  Unnsteinn segir að væntanlega eigi maðurinn rétt á bótum „ef hann kærir sig um það.“ Hann vilji enga umfjöllun og ekkert af þessu vita. „Hann vill bara vera laus við þetta.“

Unnsteinn taldi á sínum tíma ólíklegt að maðurinn yrði ákærður. „Mér fannst það strax eftir skýrslutökur, bæði hversu skýr og staðfastur hann var og að hann afhenti allt sem um var beðið.“ Húsleit var gerð á heimili mannsins og lögreglan lagði hald á ýmis gögn í tengslum við rannsókn málsins.

Visir.is greindi fyrst frá.