Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Kveikur seldur fyrir metfé: „Erum búin að gráta fullt“

Mynd: Skjáskot / RÚV
Verðlaunahesturinn Kveikur hefur verið seldur fyrir metfé til Danmerkur. Eigendurnir segja að það verði erfitt að afhenda hann en vona að hann bæti ræktunina í Evrópu.

Kveikur er átta vetra frá Stangarlæk eitt og er mikill gæðingur. Hann vakti mikla athygli á Landsmóti hestamanna fyrir tveimur árum þegar Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir sýndi hann. „Hann er mjög hátt dæmdur kynbótahestur og hefur sett met sem slíkur,“ segir Birgir Leó Ólafsson, sem á Kveik ásamt Rögnu Björnsdóttur.

Kveikur hefur fengið hæstu einkunn sem fjórgangshestur í kynbótadómi í heiminum og hann á líka hæstu einkunn í töltkeppni á þessu ári. „Hann er mannelskur sem við sem þekkjum hann vel þekkjum, eðlislega forvitni og hann er vakandi fyrir umhverfi sínu,“ segir Birgir Leó.

„Hann gerir yfirleitt alltaf allt sem hann er beðinn um,“ segir Ragna.

Kaupverðið er trúnaðarmál en eftir því sem fréttastofa kemst næst hleypur það á tugum milljóna. „Þetta er mjög dýr hestur, það er bara þannig.“ Þau segja súrsætt að láta frá sér hest eins og Kveik. Honum verður flogið úr landi í lok október. „Það var ekki flókin ákvörðun en þegar það kemur að því að fara að afhenda hann þá eru tilfinningarnar aðeins meiri. Við erum búin að gráta fullt, þá förum við bara í næstu stíu,“ segja þau.

Kveikur á um tvö hundruð afkvæmi á Íslandi.  „Við vonum að þau skili sér inn í hestaheiminn hérna heima. Svo væntanlega bætir hann ræktunina í Evrópu og gerir meiri kröfur fyrir ræktendur hér á Íslandi að gera enn betur,“ segir Ragna.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV