Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Krefur ríkið um 70 milljónir vegna frelsissviptingar

26.09.2020 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Nígerískur karlmaður hefur stefnt íslenska ríkinu og krefst sjötíu milljóna króna í skaðabætur vegna ólögmætrar frelsissviptingar. Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi í ellefu mánuði en fékk aðeins tveggja mánaða fangelsisdóm. Upphæðina byggir hann á þeirri fjárhæð sem metin var sem hæfileg vegna frelsissviptingar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í fyrra. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. 

Maðurinn var framseldur hingað til lands árið 2017 að beiðni íslenskra lögregluyfirvalda og sat í gæsluvarðhaldi bæði á Ítalíu og Íslandi. Í fyrrasumar dæmdi Landsréttur manninn, auk þriggja Íslendinga, fyrir peningaþvætti. Fólkið aðstoðaði óþekktan mann sem komst inn í tölvupóstssamskipti fiskvinnslufyrirtækisins Nesfisks og lét millifæra tugmilljóna greiðslu á rangan reikning og tókst þannig að stela peningunum.

Nígeríski maðurinn var dæmdur fyrir peningaþvætti af gáleysi en Íslendingarnir þrír fyrir peningaþvætti af ásetningi. 

Vægasti dómurinn en lengsta gæsluvarðhaldið

Maðurinn fékk tveggja mánaða dóm fyrir sinn þátt í málinu en aðrir sakborningar voru dæmdir til átta til tólf mánaða fangelsisvistar. Íslendingarnir sættu aðeins vikulöngu gæsluvarðhaldi en nígeríski maðurinn, sem hlaut vægsta dóminn, sætti gæsluvarðhaldi lengst allra.

Fyrirtaka var í málinu í héraðsdómi á þriðjudag. Í stefnunni gegn íslenska ríkinu kemur fram maðurinn hafi verið mun lengur í varðhaldi en sem nam endanlegum dómi og hafi hann hlotið af því mikinn miska og tekjumissi. Hann hafi sætt að ósekju gæsluvarðhaldi eða sambærilegri frelsissviptingu í 252 daga og síðan í framhaldinu þurft að þola farbann á Íslandi í 74 daga. 

Telur bætur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu fordæmisgefandi

Athygli vekur að í stað þess að byggja bótakröfuna á fordæmum dómstóla er í stefnunni miðað við þá fjárhæð sem metin var sem hæfileg vegna frelsissviptingar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í fyrra. Þar miðaðist upphæð bótanna við lengd frelsissviptingar. Telur lögmaður mannsins að með því sé ríkið búið að setja fordæmi og fastsetja lágmarksbætur sem beri að greiða þeim sem sviptir eru frelsi sínu að ósekju af ríkinu.

Aðalmeðferð málsins er áætluð nítjánda nóvember.