Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Játar að hafa ráðist á fólk með kjötexi

26.09.2020 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Sjö eru í haldi lögreglunnar í París vegna hnífaárásar þar í borg í gær. Átján ára maður hefur játað á sig verknaðinn og segist hafa ráðist á fólk vegna endurbirtingar umdeildra skopmynda tímaritsins Charlie Hebdo.

Tveir særðust alvarlega í í árásinni á Richard-Lenoir breiðgötunni, skammt frá fyrrum ritstjórnarskrifstofu skoptímaritsins Charlie Hebdo. Átján ára maður af pakistönskum uppruna, sem búið hefur í Frakklandi í þrjú ár, hefur játað á sig verknaðinn. Sex til viðbótar eru í varðhaldi og verða yfirheyrðir vegna málsins. 

Gérald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, segir að lögreglan hafi vanmetið hættu á hryðjuverkum á svæðinu. Þá boðaði hann aukna öryggisgæslu þar sem árásin var gerð og við bænahús gyðinga í borginni á morgun þegar Jom Kippúr dagurinn er haldinn hátíðlegur. 

Réttarhöld yfir ellefu mönnum, sem sakaðir eru um aðild að árásinni á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo og verslun í eigu gyðinga í janúar árið 2015, hófust í september. Sautján létu lífið í árásunum tveimur. Tímaritið birti að nýju skopmyndirnar umdeildu sem urðu kveikjan að árásinni við upphaf réttarhaldanna og segir maðurinn sem hefur játað á sig árásina í gær að hann hafi látið til skarar skríða vegna myndanna. Skrifstofur tímaritsins voru hins vegar færðar eftir árásina og er því nú haldið leyndu hvar þær eru til húsa.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV