Heimspekileg vangavelta um ósýnilegar hetjudáðir

Mynd: Fox Searchlight pictures / Fox Searchlight pictures

Heimspekileg vangavelta um ósýnilegar hetjudáðir

26.09.2020 - 15:29

Höfundar

Nýjasta kvikmynd bandaríska leikstjórans Terrence Malick fjallar um austurrískan bónda sem neitar að ganga í þýska herinn og berjast með nasistum í seinni heimsstyrjöldinni.

Það er til fræg ljósmynd frá árinu 1936 þar sem hópur þjóðverja stendur í hnapp og heilsar að nasistasið. Við sjáum ekki út fyrir rammann, sjáum ekki hvar myndin er tekin, en samkvæmt netinu er þetta á höfninni í Hambúrg. Hópurinn hyllir nýsmíðað skip sem leggur frá bryggjunni. Á augnablikinu þegar smellt er af lyftir fólkið upp hægri hendinni og kveður bátinn: Sieg Heil. Allir, nema einn. 

Í miðri þyrpingunni stendur maður með krosslagðar hendur. Með líkamstjáningunni einni sýnir hann andúð sína á nasismanum, og fylgisspekt samborgara sinna við þessa eitruðu hugmyndafræði. Sá eini sem neitar að taka þátt. Maðurinn, sem líklega hét August Landmesser, hefur orðið að einhverskonar táknmynd um sjálfstæða hugsun og hugrekki til að standa með eigin sannfæringu. Sá sem neitaði að taka þátt í brjálæðinu. Jafnvel þó maður viti ekkert um manninn þá verður afstaðan sem hann tjáir með líkamsstöðunni að einhverskonar innblæstri.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia common - Wikimedia commons

Það er auðvelt að segja að maður sjálfur væri nógu klár til að sjá í gegnum múgæsinginn og nógu sterkur til að standa með trú sinni, en er það svo öruggt? Getur maður gert sér í hugarlund innri og ytri átökin sem felast í því að synda gegn straumnum. Myndi maður ekki bara lyfta upp hendinni og heilsa eins og allir hinir?

Heimspekikennari og kvikmyndagerðarmaður

Í nýjustu mynd bandaríska leikstjórans Terrence Malick, A Hidden Life, falin tilvera, sem er sýnd í Kringlubíó um þessar mundir, eru áhorfendur neyddir til að takast á við þessa spurningu.

Áður en Malick sneri sér að kvikmyndagerð var hann stundakennari í heimspeki við tækniháskólann í Massachussets, MIT, og myndir hans takast oft á tíðum við heimspekilegar spurningar. Hann leyfir sér að vera alvarlegur og háfleygur - eiginleiki sem fer eflaust í taugarnar á sumum en ekki þeim sem hér talar. Hann hefur sterka sögumannsrödd og einkennandi stíl - hann notar sjónræna þætti, vindinn í grasinu og skýjabakka á himninum, til að gefa áhorfendum tíma til íhugunar. Eins margar af fyrri myndum hans – Badlands, Days of Heaven, Thin Red Line, Tree of life til að nefna nokkrar – er þetta ekkert auðvelt bíó, þrír tímar af siðferðisspurningum og hádramatískum náttúru-skotum. 

Hetjudáð eða föðurlandssvik

Aðalpersónan í A Hidden Life er austurrískur bóndi á fimmta áratug síðustu aldar, ástríkur eiginmaður og hamingjusamur fjölskyldufaðir. Unir sér vel við dagleg störf og brauðstritið, allt þar til hann er kallaður í herinn til að berjast í seinni heimsstyrjöldinni, en hann hefur bitið í sig að stefna þýskra yfirvalda, nasisminn, sé rangur og stríðið óréttlátt. Íbúar í litla Alpa-þorpinu hans eru hins vegar flestir aðdáendur Hitlers og líta á afstöðu bóndans sem föðurlandssvik.

Að það að neita að taka þátt, að neita gera illt er flóknara en bara að segja bara: Nei, takk! Ef hann neitar að ganga í herinn er nokkuð ljóst að hann verði dæmdur til dauða, börn hans munu alast upp föðurlaus og eiginkona hans að fátækri ekkju sem verður fyrirlitin í nærsamfélaginu vegna sviksemi eiginmannsins.  Og það er ljóst að ákvörðunin mun ekki hafa nein teljanleg áhrif, enginn mun frétta af hetjudáð bóndans og hún mun ekki breyta gangi stríðsins. Jújú, þetta er prinsippmál en í öllu praktísku samhengi mun dauði hans verða til einskis eða jafnvel bara til ills.

Á tímum þegar fólk flaggar dyggðum sínum á netinu, og allar athafnir eru sýnilegar á samfélagsmiðlum - ljósmynd eða það gerðist ekki - þá er kannski ágætt að velta fyrir sér gagni eða gagnsleysi ósýnilegra hetjudáða.

Byggt á sannri sögu

Myndin er auðvitað tilraun til að draga eina slíka hetjudáð fram í dagsljósið, varpa ljósi á hversu margir óþekktir píslarvottar hafa dáið fyrir sannfæringu sína í gegnum tíðina. Myndin er byggð á bréfaskriftum hjónanna Franz og Franzisku Jägerstätter, en hann var tekinn af lífi árið 1943 fyrir að neita að sinna herskyldu sinni, hann bar fyrir sig trúarlegar ástæður. Um áratuga skeið var hann gleymdur og grafinn, allt þar til á þessari öld en árið 2007 var hann viðurkenndur sem píslarvottur og dýrlingur af kaþólsku kirkjunni.

A Hidden Life er vissulega einhvers konar dýrlingasaga, en myndin sem er dregin upp er ekki einfeldningsleg. Franz er ófullkominn, hann á æi stöðugu innra stríði, hugarangur og efasemdir, það er ekki klippt og skorið hvað er rétt. Hann ræðir við safnaðarprestinn sinn og fær áheyrn biskups sem bendir honum á aðrar skyldur sem hann hefur, gagnvart föðurlandinu og gagnvart fjölskyldu sinni. Getur verið að Guð vilji að hann bregðist þessum skyldum sínum? Lögfræðingurinn sem honum er úthlutaður reynir að sannfæra Franz um að taka bara að sér hlutverk í hernum sem krefst ekki vopnaburðar, til dæmis á hersjúkrahúsi - þá ertu nú varla að gera illt. Er þetta kannski bara þrjóska? Og dómari hans við herréttinn ræðir um muninn á því að gera rangt og taka meðvitaða ákvörðun um að gera rangt. Dæmir þú okkur fyrir að taka þátt, spyr dómarinn? leikinn af aldurhnignum Bruno Ganz. 

Maður finnur til með bóndanum og spyr sjálfan sig hvort maður sjálfur gæti staðið með hinu góða, með trú sinni á hvað er rétt, þegar allur heimurinn reynir að sannfæra mann um annað. 

Afleiðingasiðfræði í samtímanum

Í samtímanum hættir okkur til að hugsa um afleiðingar sem helstu réttlætinguna fyrir athöfnum, við erum semsagt oft nytjahyggjufólk í siðferðismálum. Ef afstaða Franz mun ekki breyta gangi stríðsins, og hafa slæmar afleiðingar fyrir hann sjálfan og ástvini hans, er þá ekki bara nytsamlegra og þar með réttara að sverja Hitler hollustueið?  En ef við játum þessu erum við komin á vafasamar slóðir. Ef við getum réttlætt það með nytjahyggjunni að taka þátt í illverkum nasista - erki-illmennanna í sögu vesturlanda - þá getum við réttlætt þátttöku okkar í hvaða hryllingi sem er. Þetta gerðu auðvitað margir og gera enn á hverjum degi.

Falin tilvera

En það er að minnsta kosti tvennt sem gerir Franz kleift að standa með sannfæringu sinni. Annars vegar eiginkonan Fani sem stendur með honum, er tilbúin að taka á sig þjáninguna sem fellur henni ekki síður í skaut en honum. Kannski það hennar hetjudáð sem er ósýnileg, henntar tilvera sem er falin. Og svo hitt að hann er trúaður maður - og trúir að til sé önnur falin tilvera, guð sem sér hverja athöfn hans.

Mögulega hefur hann þannig betri varnir en veraldlega þenkjandi samborgarar hans gegn afstæðishyggju um hið góða. Þetta minnkar kannski ekki hugarangrið en veitir honum þó meiri styrk til að standa með sannfæringu sinni. Jesú var tilbúinn til að deyja fyrir syndir mannkynsins, og eigum við ekki að taka hann okkur til fyrirmyndar? Sem kristinn maður aðhyllist hann kannski annars konar afleiðinga-siðfræði, trúir því að afleiðingar gjörða hans birtist ekki einungis í þessu lífi heldur einnig eftir dauðann. Sá sem gerir gott, sá sem hegðar sér í takt við vilja guðs, hann fær umbun. Hann glatar kannski veraldlegu hamingjunni en bjargar sálu sinni.

Dygðir eða skilyrðislaust skylduboð

Þó það hrikti vissulega í stoðum hennar þá er ekki laust við að maður öfundi Franz af trúnni. Því hvernig myndi veraldlega þenkjandi nútímamaður hugsa um þessar spurningar. Hvað gerum  við sem höfum ekki trúna á himnaríki eftir dauðann til að styrkja okkur í að gera rétt í þessu lífi?

Af hverju að deyja fyrir málstað ef enginn fréttir af því og ef launin verða engin? Við getum leitað í dygðasiðfræði Aristótelesar og sagt að einungis með dygðugu hátterni lifum við fallegri tilveru - og það sé gildi í sjálfu sér. Við getum leitað í smiðju Immanuels Kant og sagt að hverjum manni beri skilyrðislaus skylda til að breyta eftir þeirri lífsreglu sem hann geti jafnframt viljað að verði að almennu lögmáli. Þú vilt að aðrir breyti rétt - þá þarft þú að breyta rétt sjálfur.

En ég velti fyrir mér hvort við getum ekki líka leitað í smiðju annars bandarísks kvikmyndagerðarmanns, sem er stundum teiknaður upp sem djúpþenkjandi hugsuður, spennumyndaleikstjórans Christophers Nolan.  Getum við kannski skoðað siðferðislegar spurningar út frá ólínulegri tímahugsun í anda Tenet. Getur verið að maður hafi nú þegar fengið launin fyrir rétta breytni? 

Himnaríki endurminningarinnar

Ef við hugsum um þá hamingju og fegurð sem við upplifum í lifanda lífi sem einhverskonar jarðneskt himnaríki, þá eru Jägerstätter-fjölskyldan svo heppin að hafa fundið það. Þau geta þakkað alheiminum þá hamingju. 

Og í minningunni um þessa hamingjutíma, er hægt að endurupplifa þá, það er hægt að öðlast himnaríki stöðugt aftur og aftur. 

Ef við samþykkjum þessa nólanísku hugmynd þá öðlast maður himnaríkið ekki vegna fyrri athafna sinna, þvert á móti leggur himnaríki ábyrgð á herðar manni, gerir þá kröfu til manns að maður breyti rétt. Einungis þannig getur þú átt endurminninguna ómengaða, einungis þannig heldur þú í himnaríki.

Ég efast um að kaþólikkinn Malick sé tilbúin að taka undir þessa sófaheimspeki en hvað um það. Siðferðislegu spurningarnar sem myndin, The HIdden Life, varpar upp eru sígildar og tímalausar - við erum alltaf að taka ákvörðun um hvort við fylgjum ríkjandi hugmyndafræði eða stöndum gegn henni.

Þessar vangaveltur virðast þó meira aðkallandi nú en oft áður. Það er varla tilviljun að bandarískur kvikmyndagerðarmaður reyni einmitt núna að setja sig í spor þjóðverja undir Hitler. Einmitt núna þegar stjórnvaldssinnar leiða stærstu heimsveldin og lýðræðið virðist svo víða riða til falls.

A Hidden Life gefur okkur tíma til að íhuga hvernig við sjálf munum bregðast við ef yfirvöld og jafnvel samfélagið allt hvetur okkur að gera illt. Væri ég tilbúinn til að fórna lífi og limum, fórna ástvinum, fyrir sannleikann, fyrir það sem er rétt?

Kvikmyndin er tilraun til að draga eina ósýnilega hetjudáð fram í dagsljósið, tilraun til að mála mynd í anda ljósmyndarinnar sem var tekin á bryggjunni í Hambúrg árið 1936, af hópnum sem heilsar að nasistasið en einn maður stendur með krosslagðar hendur og neitar að taka þátt.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Í annað skiptið á ævinni sem ég sofna yfir kvikmynd“

Tónlist

Högni berskjaldaður í heimildarmynd um geðhvörf

Pistlar

Konur leikstýra aðeins 10% íslenskra kvikmynda

Kvikmyndir

Hálfur álfur og Er ást verðlaunaðar á Skjaldborg