Háspennuleikur á Akureyri og öruggur sigur ÍBV

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Háspennuleikur á Akureyri og öruggur sigur ÍBV

26.09.2020 - 20:07
Þriðju umferð Olís-deildar karla lauk í kvöld með tveimur leikjum. Á Akureyri var boðið upp á spennuþrungin leik KA og Gróttu á meðan að ÍBV átti ekki í neinum vandræðum gegn Val.

Á Akureyri mættust KA og nýliðar Gróttu. Bæði lið gerðu jafntefli í síðustu umferð og því mátti búast við hörku leik. Grótta náði fljótt yfirhöndinni og komst þremur mörkum yfir í stöðunni 3 - 6. Þá hrukku KA-menn í gang og jöfnuðu 6 - 6 og náðu svo sjálfir eins marks forystu um tíma. Þegar að flautað var til hálfleiks voru gestirnir einu marki yfir 11 - 12. Spennan hélt áfram í seinni hálfleik, Grótta náði oft að komast einu til tveimur mörkum yfir en KA-menn jöfnuðu jafnharðan. Leikmenn KA náðu að komast einu marki yfir þegar að fimm mínútur voru eftir af leiknum en þá komust þeir í 25 - 24. Við tóku gríðarlega spennandi lokamínútur þar sem hvorugu liðinu tókst að skora þangað til á lokamínútu leiksins þegar að Birgir Steinn Jónsson skoraði jöfnunarmark Gróttu og lokatölur urðu því 25 - 25. 

Hjá heimamönnum var Árni Bragi Eyjólfsson markahæstur hjá KA með níu mörk og markverðir KA vörðu samtals ellefu skot. Hjá Gróttu voru þeir Ólafur Brim Stefánsson og Andri Þór Helgason markahæstir með fimm mörk. Stefán Huldar Stefánsson átti einnig góðan dag í marki Gróttu og varði 14 skot. 

Sigur ÍBV aldrei í hættu

Í Vestmannaeyjum tóku heimamenn í ÍBV á móti Val. Þessi sömu lið áttust við í Meistarakeppni HSÍ í upphafi mánaðarins og þann leik unnu ÍBV. Fyrr í dag mættust liðin líka í Olís-deild kvenna og þar unnu heimakonur. 

ÍBV byrjaði leikinn mun betur og var komið fjórum mörkum yfir eftir tæplega tíu mínútur. Eftir um það bil 20 mínútur var munurinn orðinn sex mörk og í hálfleik var ÍBV komið með átta marka forystu, en staðan þá var 18 - 10 fyrir ÍBV. Valsmenn áttu í raun aldrei möguleika í seinni hálfleik og þrátt fyrir að ná að minnka forystu ÍBV niður í fjögur mörk var sigur Eyjamanna aldrei í hættu. Lokatölur í leiknum urðu 28 - 24 fyrir ÍBV. 

Theodór Sigurbjörnsson og Hákon Daði Styrmisson voru með sex mörk hvor fyrir ÍBV í dag og Petar Jokanovic varði níu skot. Hjá Val voru Magnús Óli Magnússon og Finnur Ingi Stefánsson markahæstir með sjö mörk og Martin Nagy varði fimm skot.