Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Finna enn fyrir myglu þrátt fyrir úrbætur

26.09.2020 - 19:44
Mynd: Fréttir / Fréttir
Móðir barns í Fossvogsskóla, sem finnur enn fyrir einkennum myglu þrátt fyrir úrbætur á húsnæði skólans, segist sár og reið yfir úrræðaleysi borgaryfirvalda. Kallað hefur verið eftir frekari rannsóknum á byggingunni en Reykjavíkurborg telur ekki þörf á frekari úrbótum.

Mygla greindist í fjórum sýnum

Starfsfólk og nemendur Fossvogsskóla kvörtuðu undan einkennum myglu og mælingar og sýni voru tekin úr byggingunni snemma árs 2019. Þær sýndu fram á slæm myglu- og rakavandamál. Varhugaverðir myglusveppir voru í byggingunni og viðamiklar endurbætur voru nauðsynlegar.

Skólanum var lokað í mars sama ár og framkvæmdir hófust. Hann var opnaður að nýju um haustið en í desember var aftur ráðist í framkvæmdir vegna leka. Framkvæmdirnar hafa kostað borgina hundruð milljóna króna.

Í lokaskýrslu verkfræðistofunnar Verkís, sem var opinberuð í vikunni, segir að ný sýni hafi verið tekin til ræktunar að beiðni borgarinnar í kjölfar framkvæmdanna. Fjögur af þeim þurfti að greina nánar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og sú greining leiddi í ljós varhugaverða myglu.

Einkennalaus þegar hann er ekki í skólanum

Sigríður Ólafsdóttir er hjúkrunarfræðingur og móðir drengs í þriðja bekk Fossvogsskóla. Hún segir son sinn hafa fundið fyrir einkennum myglu frá því að hann hóf nám í skólanum.

„Hann fær mjög mikið exem um allan líkamann sem hann klæjar í og svíður í. Hann verður líka órólegur, þreyttur, líður illa inn í sér, á erfitt með að hugsa og læra og einbeita sér,“ svona lýsir Sigríður einkennum sonar síns.

„Hann lagast í fríum, hann skánar um helgar, er einkennalaus á sumrin. Það er algjörlega skýrt að þetta tengist veru hans í skólanum.“

Íhugar að flytja son sinn um set

Fleiri börn finni enn fyrir einkennum, sem hafi ekki minnkað þrátt fyrir úrbætur á húsnæðinu. Reykjavíkurborg segir niðurstöður nýrra sýna ekki kalla á frekari framkvæmdir. Sigríður segir að erfitt hafi verið að fá svör og upplýsingar frá borginni. Hún segist ráðþrota og íhugar að flytja son sinn í annan skóla.

„Það þarf að leita betur þegar svona sterkar vísbendingar eru um að það hafi ekki fundist öll vandamálin í þessum skóla. Þá þarf að halda áfram að leita. Það er eitthvað meira þarna. Það fer gríðarleg orka í að sinna barni sem líður ekki vel. Við erum mjög sorgmædd yfir þessu, við erum mjög sár og reið. Þetta á bara að vera í lagi.“