Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Er íbúum Egyptalands óhætt að gagnrýna forsetann?

26.09.2020 - 07:00
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Abdul Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, í Hvíta húsinu, 3. apríl 2017.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Abdul Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, í Hvíta húsinu. Mynd: EPA
Hvernig taka stjórnvöld í Egyptalandi á andstæðingum sínum? Getur verið að fólk sé raunverulega í hættu þar í landi eingöngu vegna stjórnmálaskoðana sinna? Rannsakandi hjá Mannréttindavaktinni segir fráleitt að halda öðru fram.

Mál egypskar fjölskyldu sem sótti um alþjóðlega vernd hér á Íslandi vakti mikla athygli og reiði almennings eftir að greint var frá því að það ætti að vísa þeim úr landi, aftur til Egyptalands. Þau segjast eiga hættu á ofsóknum þar vegna pólitískrar þátttöku föðurins. Á fimmtudag bárust þær fréttir að þeim hefði verið veitt alþjóðleg vernd en þó ekki á grundvelli þess að þeim sé hætta búin í heimalandinu. En hver er staðan í Egyptalandi?

Egyptaland er í Norður-Afríku og þar búa yfir 104 milljónir. Það eru ekki mörg lönd í heiminum sem státa af jafn langri sögu siðmenningar. Fólk kannast kannski við að hafa heyrt um Egyptaland hið forna, sem rekja má til ársins 3100 fyrir Krist. Eins og kannski gefur að skilja er ekki hægt að fara í saumana á rúmlega fimm þúsund ára sögu hér. Við ætlum aðallega að horfa til dagsins í dag, og síðasta áratugar. Við einblínum á stöðu mannréttinda í landinu og leitum ráða hjá Amr Magdi rannsakanda hjá Miðausturlandadeild Mannréttindavaktarinnar.

Hættulegt að tala fyrir mannréttindinum

Amr Magdi starfar hjá Miðausturlandadeild Mannréttindavaktarinnar sem rannsakandi. Rannsóknir hans beinast aðallega að Egyptalandi, sem er hans heimaland. Hann fluttist þaðan árið 2012 til þess að sækja nám í Svíþjóð. „Þar til 2013 gat ég farið í heimsókn til Egyptalands en upp frá því tók ég ákvörðun um að það væri orðið of hættulegt. Og hættan hefur aukist með árunum,“ segir Amr. 

Amr segir að öll þau sem tala fyrir mannréttindum, aðgerðasinnar eða forsvarsmenn samtaka eigi það á hættu að vera handtekin hvenær sem er. Það hefur ekki alltaf staðið í vegi fyrir þeim sem berjast fyrir auknum réttindum að þurfa að dúsa í fanglesi um tíma en Amr segir að meðferð egypskra yfirvalda sé vægast sagt hræðileg. „Fyrir það fyrsta þá veistu ekki hversu lengi þú verður í fangelsi. Þú gætir fengið tíu, fimmtán eða jafnvel tuttugu ára dóm. Svo er það aðbúnaðurinn í fangelsunum. Þetta er ekkert í líkingu við til dæmis sænsk eða norsk fangelsi,“ segir Amr. 

Sem dæmi nefnir hann að fangar fái sumir ekki að hitta fjölskyldu sína svo mánuðum eða árum skiptir. Fjöldi fanga látist vegna þess að þeir fái ekki læknisaðstoð. Þá séu fangelsin mörg yfirfull og ekki einu sinni nægt pláss í klefum til að allir geti sofið á sama tíma, það geti ekki allir rétt úr sér í einu og fangarnir þurfi að skiptast á að sofa. „Þetta eru fangelsin í Egyptalandi. Þau eru sannarlega helvíti. Og það er hluti af hræðslutaktík stjórnvalda. Þau vilja að þú vitir að þetta snúist ekki aðeins um að svipta þig frelsinu heldur eru þetta staðir sem er hræðilegt að þurfa að verja einum degi á, svo þú getur ímyndað þér hvernig er að dvelja þar árum saman.“

Bjartsýnin eftir janúarbyltinguna 2011

Í janúar 2011 flykktust milljónir Egypta út á götur til mótmæla. Þá var hinn þaulsætni Hosni Mubarak við völd. Í höfuðborginni Kairó var Tahrir-torg eða frelsistorgið miðpunkturinn. Mótmælendur komu sér fyrir á torginu og létu ekki undan fyrr en Mubarak fór frá völdum. Amr bjó í Kairó á þeim tíma og segir að það hafi ríkt mikil bjartsýni. Fólk trúði því að nú yrðu raunverulegar breytingar. 

„Við vorum afar vongóð um að við gætum breytt landinu. Við gætum fengið almennilega ríkisstjórn, ríkisstjórn sem almenningur gæti dregið til ábyrgðar, frjálsa fjölmiðla o.s.frv. Og við höfðum það upp að vissu marki 2011 og 2012.“

epa05750036 (FILE) - A file photo dated 08 February 2011 shows Egyptian anti-government protesters gathering on Tahrir Square as protests continues in Cairo, Egypt. On the sixth anniversary of the 25 January 2011 uprising in Egypt Egyptian President Abdel
25. janúar 2011 söfnuðust tugir þúsunda saman í miðborg Kaíró til að krefjast afsagnar Hosnins Mubaraks, forseta. Nokkrum mánuðum síðar, í desember sama ár, brutust út miklar óeirðir í borginni, sem enn er verið að vinna úr í dómskerfi landsins. Mynd: EPA
Frá mótmælunum í janúar 2011.

En þessi tími var enginn dans á rósum, það getur verið erfitt verkefni og stormasamt að reyna að breyta stjórnkerfi úr einræði í lýðræði nánast á einni nóttu. Þjóð sem hefur búið við spillingu, kúgun og lögregluofbeldi áratugum saman er kannski ekki í stakk búin að ganga til lýðræðislegra kosninga si svona. Þegar ekkert rými hefur verið fyrir stjórnmálaöfl eða stjórnmálaskoðanir sem þóknast ekki yfirvöldum eru kannski fáir tilbúnir að bjóða sig fram. En Egyptar gengu til sinna fyrstu og einu raunverulega frjálsu lýðræðislegu forsetakosninga 2012. Og Mohammed Morsi, frambjóðandi Bræðralags múslima, varð fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Egyptalands. En Adam var ekki lengi í paradís. 

Herinn steypti Morsi af stóli í júlíbyrjun 2013 í kjölfar háværra mótmæla. Amr segir að mótmælendur hafi verið að kalla eftir kosningum, en ekki valdaráni hersins. Þetta varð ekki til þess að skapa frið og fjöldi fólks kom einnig saman til þess að sýna Morsi sem var hrakinn frá völdum stuðning. 

Þá tók herinn til sinna ráða. 

Sveitir hersins réðust að stuðningmönnum Morsis sem mótmæltu við Rabaa-torg. Fimm götur liggja beint að torginu og sveitirnar komu að frá öllum þeirra um hábjartan dag og myrtu um þúsund manns á nokkrum klukkustundum. Atburður sem stundum er kallaður Rabaa-fjöldamorðið. Og Amr segir að morð á friðsömum mótmælendum hafi ekki verið einu brotin. Herinn hafi kveikt í moskunni sem stóð við torgið og spítala sem hafði verið komið upp til þess að sinna særðum mótmælendum. Hundruð voru handtekin og mörgum meinað að leita sér læknisaðstoðar sem á henni þurftu að halda. „Og sjö árum síðar, eftir þetta fjöldamorð sem líklega telst glæpur gegn mannkyni, og var meðal mestu drápa á mótmælendum í sögu Egyptalands, hefur ekki einn einasti aðili verið yfirheyrður eða sóttur til saka,“ segir Amr. Jafnvel þó yfirvöld hafi á vissan hátt viðurkennt að hafa ekki tryggt örugga flóttaleið fyrir friðsama almenna borgara hafi enginn þurft að svara spurningum né gjalda fyrir atburðinn. 

En hver ætli hafi verið hæstráðandi í hernum á þessum tíma? Það  er einmitt Abdel Fattah al-Sisi, núverandi forseti Egyptalands. 

epa07396438 Egyptian President Abdel Fattah al-Sisi speaks during the closing session of the first EU-Arab League Summit in Sharm el-Sheikh, Egypt, 25 February 2019. The European Union (EU) and League of Arab States (LAS) summit is held at the International Congress Centre in Sharm El-Sheikh between 24 and 25 February. The summit will for the first time bring together the heads of state or government from both organizations.  EPA-EFE/KHALED ELFIQI
 Mynd: EPA
Abdel Fattah al-Sisi forseti Egyptalands.

Ofbeldi hluti af daglegu lífi

Amr segir að á hans valdatíð hafi ofsóknir og ofbeldi gegn öllum þeim sem stjórnvöld telja að ógni sér, mótmælendum, pólitískum andstæðingum, mannréttindafrömuðum, orðið normið. „Frá því að herinn tók yfir 2013 hefur allt það sem byltingin 2011 áorkaði glatast. Og ekki aðeins það heldur búum við nú við umtalsvert meiri kúgun en í valdatíð Mubaraks,“ segir Amr. 

Hann gengur svo langt að segja að Mubarak myndi líklega teljast sem sérstakur talsmaður mannréttinda miðað við stjórnarhætti Sisi. Sem dæmi nefnir Amr að fjöldi blaðamanna í fangelsi og aftökur hafi náð áður óþekktum hæðum. Fjöldi vefsíðna, til dæmis á vegum mannréttindasamtaka, eru óaðgengilegar almenningi og allir helstu fjölmiðlar eru í eigu og stjórnað af yfirvöldum og svo lengi mætti telja. Þá getur hver sem er átt á hættu að lenda í fangelsi fyrir að tjá skoðanir sínar á samfélagsmiðlum. „Til dæmis nú á tímum COVID-19 faraldursins hafa tugir verið handteknir og saksóttir fyrir það að gagnrýna viðbrögð yfirvalda við faraldrinum. Þeirra á meðal eru níu læknar og heilbrigðisstarfsfólk sem gagnrýndi skort á hlífðarbúnaði. Svo þú getur rétt ímyndað þér að ef svona á sér stað á tímum heimsfaraldurs hvað er aðhafst dags daglega í þessum efnum,“ segir Amr. 

Hver er hryðjuverkamaður?

Grimmileg herferð stjórnvalda gegn andstæðingum sínum virðist eiga sér lítil takmörk. Fyrsta skotmarkið var Bræðralag múslima og stuðningsmenn þeirra en nú getur nánast hver sem er verið í hættu. Orðræða stjórnvalda, segir Amr, er að þau séu aðeins að eltast við hryðjuverkamenn, fólk sem ógni öryggi Egyptalands. Sannleikurinn sé þó allt annar og vitað sé um tugi þúsunda sem eru saklaus bak við lás og slá. 

Í síðustu viku vogaði hópur af fólki sér út að mótmæla, sem er bannað með lögum, það þarf leyfi stjórnvalda til þess að mótmæla. Hundruð voru handtekin. Á sama tíma í fyrra kom einnig til mótmæla víða um land, yfir fimm þúsund voru handtekin þá. „Þetta sýnir vel það rými sem fólk hefur. Það er ekkert rými fyrir fólk til þess að tjá skoðanir sínar eða mótmæla stefnu stjórnvalda án þess að eiga á hættu að lenda í fangelsi eða vera kallaður hryðjuverkamaður,“ segir Amr.

En hvernig svarar forsetinn þessum ásökunum? Hann er ekki vanur því að fá gagnrýnar spurningar en flestum að óvörum mætti hann í viðtal hjá fréttskýringaþættinum Sextíu mínútum í janúar í fyrra. 

Forsetinn komst vægast sagt ekki vel frá því viðtali. Fréttamaðurinn Scott Pelley saumaði hart að honum og spurði meðal annars um þau mannréttindabrot sem við fjöllum um í þessum pistli. Það er augljóst að Sisi líður ekki vel í viðtalinu, hann reynir að komast undan því að svara og snýr út úr. Eftir viðtalið reyndu egypskt yfirvöld að fá sjónvarpsstöðina CBS til þess að hætta við að sýna það. Pelley og Rachel Morehouse pródúsent lýstu þessu í sérstöku innslagi sem var birt eftir þáttinn. 

Hvorugt þeirra segist hafa nokkurn tíma fengið slíka beiðni áður frá viðmælendum. 

Ásakanir leyniþjónustu duga til sakfellingar

Í Egyptalandi er sannarlega dómskerfi, hvernig má það þá vera að þetta sé virkilega staðan? Amr lýsir því fyrir okkur hvernig kerfið virkar. „Þegar litið er á dómssköl þá eru vanalega engin haldbær sönnunargögn. Sannanirnar eru í raun bara áskanir leyniþjónustunnar. Þannig að lögreglumenn skrifa skýrslu sem byggist á leynilegum heimildum um að fólk hafi tekið þátt í hinu eða þessu, en það eru engar efnislegar sannanir,“ segir Amr. 

Hann segir að iðulega sé það leyniþjónustan sem sjái um að handsama fólk. Oft hverfi fólk vikum eða mánuðum saman. Á meðan geti fólk þurft að þola pyntingar af verstu gerð. Rafstuð, vatnsdrekkingar, þeim er neitað um mat, vatn og svefn, hótað nauðgunum eða jafnvel nauðgað. Amr segir að þeim sé svo haldið í leynilegum varðhaldsstöðvum þar til ummerki um pyntingar hverfa eða minnka. Þá loks byrjar formlegt ákæruferli og enginn spyr hvar fólkið var niðurkomið. „Þetta er risastór vandamál og afar gróf mannréttindabrot sem eru framin nánast daglega í Egyptalandi,“ segir Amr. Og þetta fái að viðgangast árum saman vegna þess að það sé ekkert eftirlit. Engar óháðar stofnanir eða samtök fái leyfi til þess að starfa í landinu og stjórnvöld eigi að hafa eftirlit með sjálfum sér.

Mál Khedr-fjölskyldunnar

Það var ekki ætlunin að spyrja Amr sérstaklega um mál sex manna fjölskyldunnar frá Egyptalandi sem fékk vernd á Íslandi á föstudag, en hann biður um að fá að leggja orð í belg þó hann hafi ekki skoðað öll skjöl málsins. Fjölskyldunni var á endanum veitt dvalarleyfi sem byggist á því að of langur tími leið frá því að sótt var um alþjóðlega vernd og þar til endanleg niðurstaða fékkst í málið. Það er því enn mat íslenskra stjórnvalda að þeim sé ekki hætta búin í Egyptalandi. 

Amr furðar sig á því mati. Hann segir að ef fjölskyldufaðirinn sé sannarlega stuðningsmaður Bræðralags múslima, líkt og kemur fram í umsókn þeirra um aljóðlega vernd, sé hann í raunverulegri hættu við komuna til Egyptalands. Hann telur líkur á að maðurinn verði handtekinn strax á flugvellinum, pyntaður til játninga á einhverjum glæpum og látinn dúsa í varðhaldi til langs tíma.

„Það er einfaldlega rangt að halda því fram að þau væru ekki hættu færu þau aftur til Egyptalands,“ segir Amr. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV