Barnleysi, óbeisluð náttúra og hörð lífsbarátta

Mynd: samsett / samsett

Barnleysi, óbeisluð náttúra og hörð lífsbarátta

26.09.2020 - 10:01

Höfundar

Út er komin skáldsagan Tíkin eftir kólumbíska rithöfundinn Pilar Quintana. Þar kynnast lesendur óblíðum náttúruöflum, þrúgandi hita og viðsjárverðu hafi sem er víst til að gleypa börn og hvolpa.

Aðalpersóna bókarinnar, Damaris, þráir ekkert heitar en að verða móðir. Til þess beitir hún ýmsum ráðum og töfralausnum en án árangurs. Þegar henni býðst að taka að sér tíkarhvolp grípur hún tækifærið fegins hendi. „Hún fær sér þennan hund í raun sem staðgengil barns en hundur er ekki barn heldur hluti af þessari náttúru sem lætur ekki tjóðra sig,“ segir Jón Hallur Stefánsson þýðandi bókarinnar.

„Pilar Quintana er ung kona fædd í Cali í Kólumbíu, glæpaborginni miklu,“ segir Jón Hallur. „Hana langaði að verða rithöfundur en hefur látið að því liggja að hún hafi verið undir þrýstingi um að gera eitthvað annað, svo hún fór á flakk um heiminn í hippatilveru einhverri.“ Þegar hún sneri til baka úr flakkinu hóf hún að skrifa.

Quintana er mjög raunsær höfundur, segir Jón Hallur og minna verk hennar lítið á töfraraunsæið sem suður-amerískar bókmenntir eru svo þekktar fyrir. Tíkin er þriðja skáldsaga hennar og hafði sagan blundað lengi í höfundinum. „Síðan eignast hún barn og þá er hún tilbúin til að skrifa þessa sögu,“ segir Jón Hallur. „Hún skrifar hana á símann sinn á milli þess sem hún gefur brjóst. Hún heldur að hún sé að skrifa smásögu en síðan rífur hún af sér þau höft og gerir skáldsögu.“

Mynd með færslu
 Mynd: cc - Angustura
Forlagið Angústúra gefur bókina út.

Lesendur sem ekki þekkja til landsvæðisins þar sem sagan gerist kynnast þar framandi umhverfi. „Það er eitt af því sem er svo vel heppnað í þessari bók hvað hún lýsir þessu vel. Þetta er í senn yfirmáta blómlegt líf þarna, þetta er í regnskógabelti þar sem náttúran kraumar af krafti, en líka ofboðslega hrjóstrugt. Það er erfitt að búa þarna af því að þetta eru erfið lífsskilyrði með látlausar rigningar og náttúran lætur ekkert tjóðra sig eða setja sér skorður á neinn hátt – hún bara veður yfir þig.“

Quintana hefur sjálf sagt frá því að hún hafi hrakist þaðan burt vegna ofbeldissambands. „Það kannski kemur eitthvað af þeirri tilfinningu í þessari sögu, sem er að mörgu leyti henni tengd. Þetta er saga um konu sem getur ekki eignast barn og hún hefði sjálf í rauninni alveg getað verið í þeirri stöðu.“

Það er stéttavídd í skáldsögunni – höfundur bókarinnar er hvít en hún skrifar um svarta konu. Sögupersónurnar, Damaris og Rogelio, lifa í ríkmannlegu umhverfi þrátt fyrir fátækt sína, en þau eru gæslufólk húsnæðis sem áður tilheyrði efnaðra fólki. „Þau gæta hússins, sem hefur staðið tómt í mörg ár út af harmleik sem er hluti af bakgrunni sögunnar,“ segir Jón Hallur, „[Damaris] verður svo meðvituð um það og skammast sín fyrir að þykjast vera eitthvað annað en þau eru.“

Stór persóna í bókinni er tíkin sjálf, hundurinn sem Damaris eignast og verður eins konar sálufélagi hennar til að byrja með í sögunni. „Tíkin er mikill táknrænn þungi sem hún ber. Þetta er saga um barnleysi en höfundurinn hefur nú nefnt leikrit Lorca, Yerma, sem áhrifavald. Tíkin verður þessi spennuvaldur í sögunni sem knýr hana áfram.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Viljum gefa út bækur sem okkur langar að lesa“

Bókmenntir

Mögnuð innsýn í líf ástríðufullra vísindamanna

Bókmenntir

Stórsaga sem minnir á Íslendingasögur

Bókmenntir

Eiturlyfjaheimurinn með augum barns