Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Áskorun að halda flokksstarfinu gangandi

26.09.2020 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór - RÚV
Formaður þingflokks Pírata segir að það verði mikil áskorun að halda flokksstarfinu gangandi í vetur ef faraldurinn dregst á langinn. Aðalfundur flokksins hófst í dag.

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á störf stjórnmálaflokka. Aðalfundur Pírata fer að mestu leyti fram á netinu og er stjórnað frá húsnæði þeirra við Síðumúla en honum lýkur á morgun.

Halldóra Mogensen formaður þingflokks Pírata segir ljóst að það verði krefjandi að halda úti flokksstarfi í vetur við óbreyttar aðstæður.

„Þetta verður áskorun. Vonandi að þetta verði orðið betra á næsta ári og verði ekki alveg sömu hömlur en maður veit það ekki þannig að við erum bara tilbúin fyrir allt,“ segir Halldóra.

En það voru fleiri stjórnmálaflokkar sem funduðu í dag. Flokksráðsfundur Miðflokksins var sendur út frá skrifstofu flokksins við Lækjartorg. Flokkurinn hefur tvisvar þurft að fresta landsþingi út af faraldrinum en í dag var ákveðið að boða til aukalandsþings síðar í haust.

„Já því miður hefur þetta talsverð áhrif en þá verður maður að reyna að laga sig að aðstæðum og ástandinu og við erum að gera það meðal annars með þessum fundi. En ætlum líka að leggja áherslu á að vera í sem bestu og mestu sambandi við okkar fólk í gegnum fjarfundarbúnað og síma, tölvupóstum og öðrum leiðum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV