Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

200 fengu mataraðstoð — erfitt að mæta í röðina

26.09.2020 - 19:17
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Yfir 200 fjölskyldur á Suðurnesjum fengu mataraðstoð fyrir helgi. Um fimmtíu þurftu frá að hverfa á fimmtudag af því að það var ekki nóg til. Kona sem missti vinnuna í faraldrinum segir erfitt að taka það skref að mæta í röðina. Helmingur atvinnulausra á Suðurnesjum eru útlendingar.

Erfitt að finna vinnu

Hátt í fimmtíu voru mætt í röð fyrir utan Fjölskylduhjálp í Keflavík um hálftíma áður en úthlutun átti að hefjast á fimmtudag. Flestir sem fréttastofa tók tali voru útlendingar búsettir hér.

Ein þeirra er Kasia, hún er frá Póllandi, er einstæð og á þrjú börn. Hún missti vinnuna fyrir fjórum mánuðum, í upphafi faraldursins. „Áður var ég í vinnu og fékk nóg laun til að ná endum saman. Nú er það erfitt, ekki bara vegna Covid. Ég er að leita að vinnu en það er mjög erfitt. Ég þarf að borga leigu og margt annað. Þetta er erfitt,“ segir hún.

Um 2000 manns hafa fengið mataraðstoð í Keflavík síðan um miðjan apríl. Í matarúthlutunina á fimmtudag mættu um 145 manns, flestir fyrir hönd heillar fjölskyldu. Færri komust að en vildu, um fimmtíu voru enn í röðinni þegar maturinn kláraðist. „Þetta er alla daga, við erum jafnvel með fjörutíu fjölskyldur á morgun,“ segir Anna Valdís Jónsdóttir, varaformaður og verkefnisstjóri fjölskylduhjálpar Íslands á Suðurnesjum. Flestir sem þurftu frá að hverfa fengu mat daginn eftir. 

Hópurinn breyst eftir faraldurinn

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Anna Valdís Jónsdóttir, varaformaður fjölskylduhjálpar Íslands.

Anna Valdís segir að hópurinn sem sækir aðstoð hafi breyst eftir kórónuveirufaraldurinn. „Aðrir eru búnir að standa í þessari röð, öryrkjar og eldri borgarar. Nú er nýr hópur að koma inn og það eru útlendingar sem hafa verið búsettir hér, sumir lengi, jafnvel í 16 ár og eru atvinnulausir. Þannig þetta er nýtt fyrir þeim. Margir eru ekki komnir inn á atvinnuleysisbætur, þannig að þetta er mjög erfitt,“ segir Anna Valdís jafnframt. „Það gleður okkur mikið að geta hjálpað þessu fólki.“

Stundum erfitt að sækja aðstoð

Atvinnuleysi mældist 18% á Suðurnesjum í ágúst og jókst um eitt og hálft prósentustig milli mánaða. Margir eru að klára uppsagnarfrestinn og því er gert ráð fyrir að atvinnuleysi aukist um eitt prósentustig í þessum mánuði. Um helmingur atvinnulausra á Suðurnesjum eru útlendingar. 

„Ég er að leita að vinnu. Alla daga, en það er enga vinnu að hafa. Ég á enga peninga. Þess vegna kem ég hingað,“ segir Hassan.

Þetta er í annað sinn sem Kasia fær mataraðstoð. Hún segir að það sé erfitt að ná endum saman. „Mér líður ekki vel og ég er stundum feimin að koma hingað. Ég held að mörgum líði eins,“ segir Kasia. 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV