Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Yfir 500 börn í sóttkví í Reykjavík

25.09.2020 - 17:12
Grunnskólabörn lesa. Úr umfjöllun Kveiks um læsi.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Í þriðju bylgju faraldursins hefur talsvert meira verið um smit á meðal ungmenna og barna á leik- og grunnskólaaldri miðað við fyrr í faraldrinum. Hið minnsta 534 börn eru í sóttkví á höfuðborgarsvæðinu vegna 22 smita í grunnskólum og leikskólum, ýmist meðal barna eða starfsmanna.

Starfsemi er skert í fimm grunnskólum og einum leikskóla, Ægisborg. Grunnskólarnir sem hafa verið með skerta starfsemi eru Dalskóli, Hvassaleitisskóli, Melaskóli, Ingunnarskóli og Vesturbæjarskóli. Einum grunnskóla var lokað, Tjarnarskóla.  

Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn fréttastofu um áhrif faraldursins á starf grunnskólanna. Þar kemur fram að 129 starfsmenn í leik- og grunnskólum borgarinnar séu í sóttkví og 534 börn á leik og grunnskólaaldri. 

Það skal tekið fram að tölurnar eru síðan á miðvikudag þegar staðan var metin á skóla- og frístundasviði, og því gæti hafa fjölgað í hópi þeirra sem eru í sóttkví. Til að mynda eru þeir sem voru settir í sóttkví í skólum í Vesturbæ Reykjavíkur í morgun ekki inni í þessum tölum. Ekki liggur fyrir hversu margir þeirra sem settir voru í úrvinnslusóttkví í gær þurfa að fara í sóttkví í sjö daga. Upplýsingar um stöðu mála í öllum grunnskólum borgarinnar er næst að vænta um miðja næstu viku.