Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Við viljum lifa eðlilegu lífi eins og annað fólk“

25.09.2020 - 19:33
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Kehdr-fjölskyldan, frá Egyptalandi, var hrædd vikuna sem hún var í felum en himinlifandi að fá loks dvalarleyfi á Íslandi eftir rúma tveggja ára bið. Krakkarnir hlakka til að hitta vini sína.

Síðdegis í gær fékk fjölskyldan dvalarleyfi af mannúðarástæðum þar sem meðferð málsins tók of langan tíma eftir að kærunefnd útlendingamála féllst á þriðju upptökubeiðni fjölskyldunnar. „Þessar fréttir komu okkur á óvart. Við grátum mikið og við erum alsæl,“ segir Doaa Mohamed Mohamed Eldeib.

Hvernig finnst ykkur að fá að vera á Íslandi? „Það er gaman og það er gaman að eiga heima á Íslandi og kunna að tala íslensku,“ segir Abdalla Ibrahim Mahrous Ibrahim Khedr, sem er 10 ára.  Hvenær hittiði vini ykkar aftur? „Í skólanum,“ segir Abdalla sem er spenntur að hitta vini sína. „Við myndum leika saman eftir skóla.“

Hrædd í felum í viku

Fjölskyldan fór huldu höfði þegar ljóst varð að vísa ætti henni úr landi og lýsti stoðdeild ríkislögreglustjóra eftir henni. Þau segja það hafa verið erfitt að vera í felum síðustu daga. „Við höfum verið mjög óttaslegin þessa viku og höfum ekki farið út fyrir hússins dyr. Við höfum ekki hringt úr símanum okkar eða talað við neinn,“ segir Doaa Mohamed. 

Þakklát Íslendingum

Fjöldi Íslendinga lýsti yfir stuðningi við fjölskylduna og krafðist þess að hún fengi dvalarleyfi. „Við erum afar glöð og þakklát með stuðninginn frá Íslendingum. Allur almenningur studdi okkur. Takk fyrir,“ segir hún jafnframt.

„Takk fyrir fólk sem hefur hjálpað okkur,“ segir Abdalla.

Kehdr-fjölskyldan, sem búið hefur hér á landi í rúm tvö ár, ætlar að snúa aftur til Ásbrúar á morgun þar sem þau búa. Krakkarnir fara aftur í skóla eftir helgi. „Við viljum lifa eðlilegu lífi eins og annað fólk með börnunum okkar. Við viljum vinna og lifa eðlilegu lífi,“ segir Doaa sem er hjúkrunarfræðingur.

Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór? „Ég vil vera flugmaður eða laga flugvél,“ segir Abdalla.