Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vannýtt tækifæri á metnaðarfullri sýningu

Mynd: SÍM / SÍM

Vannýtt tækifæri á metnaðarfullri sýningu

25.09.2020 - 11:35

Höfundar

Miðað við metnaðarfullt og viðeigandi markmið sýningarinnar Á sameiginlegri jörð á Korpúlfsstöðum, og þá burðugu lista- og fræðimenn sem í henni taka þátt, hefði verið hægt að nýta tækifærið betur til að virkja myndlistina sem hreyfiafl, segir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir sjónmenningarrýnir Víðsjár.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Á hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum, sýningarsal Sambands íslenskra myndlistarmanna, stendur nú yfir sýningin Á sameiginlegri jörð, eða On Common Ground á ensku. Þetta er samsýning 13 myndlistarmanna frá Íslandi, Litáen og Póllandi, sem ýmist eru innfæddir eða aðfluttir, sumir hverjir af annarri kynslóð innflytjenda. Það er Akademía skynjunarinnar sem stendur fyrir sýningunni, í verkefnisstjórn Önnu Eyjólfs og Ragnhildar Stefánsdóttur. Sýningin stendur til 26. september, og er hluti af Listahátíð í Reykjavík.

Sýningin er angi af stærra samstarfsverkefni þar sem listamennirnir, ásamt fræðimönnum á sviði vistfræði, mannfræði og heimspeki, skoða hugtakið „heima“ út frá ólíkum sjónarhólum. Verkefninu er ætlað að vera fræðileg rannsókn á líðan, afstöðu og hugmyndum fólks um heimkynni sín og þátttakendur leita svara við spurningunni „Hvar á ég heima?“. Listvettvangurinn hefur áður glímt við þessa spurningu, en „heima“ var einmitt þema Listahátíðar í Reykjavík árið 2018. Og í ár er þema hátíðarinnar „heimar“.

Þessi tvö hugtök, „heima“ og „heimar“ birtast jöfnum höndum á sýningunni á Korpúlfsstöðum. Listamennirnir horfa ýmist inn á við og leita í persónulegar sjálfsmyndir og reynslu, eða út á við til umhverfisins og jafnvel alla leið út í geim. Sýningin ávarpar þannig togstreituna sem felst í því að tilheyra tilteknum landfræðilegum stað annars vegar, með þeim minningum, menningu, tungumáli og tengslaneti sem því fylgir, og hins vegar að vera hluti af stærri heild, sameiginlegri jörð, sama heimi. Við erum jú, sífellt að vega salt milli þess sem aðgreinir okkur og hins sem sameinar okkur.

Mörg verkanna fjalla um bernskuna sem farveg fyrir hugmyndina um það að eiga heima einhvers staðar, eins og til dæmis má sjá í verki Kristínar Reynisdóttur, Swing, risastórri rólu sem hangir niður úr háu loftinu í rauðum kaðli. Yfirstærð rólunnar, sem nokkrir geta setið á í einu, vekur upp tilfinningu fyrir samvinnu, hvernig með samhentu átaki er hægt að ná góðri sveiflu, en einnig hvernig maður kemur alltaf aftur á sama stað þótt maður ýti sér burt. Verk pólsku listakonunnar Kaia Dobrowolska, Strategies for Subsiting, skapar svipuð hugrenningatengsl, en hún hefur komið fyrir litlu húsi í undirstærð, eins konar leikfangahúsi úr viðkvæmu burðarvirki. Hús, sem gæti allt eins staðið fyrir útilokun þeirra sem standa fyrir utan, rétt eins og öryggi þeirra sem fyrir innan eru. Í einingunni sem heimilið er, myndar fólk tengsl hvert við annað, sem vara lengur en efnisleiki hússins sem hýsir það. Þannig minnir Kaia okkur á hverfulleika hugmyndarinnar um heimili.

Hverfulleikinn birtist í fleiri verkum á sýningunni. Verk Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur, Blueprint, sýnir kort af stjörnum norðurhiminsins, sem notað hefur verið í aldanna rás sem leiðarhnoða til að rekja sig eftir á siglingu yfir úthöf. Þessi mynd af stjörnuhimninum, sem hefur verið götuð út á örþunnan og fagurbláan kalkipappír af mikilli nákvæmni, getur rifnað við minnsta rask, og þannig bendir verkið okkur á forgengileika jafnvel stöðugustu kerfa og viðmiða sem við höfum búið okkur. Og verk Röggu Láru Weisshappel, Brevity, sýnir okkur viðkvæmar og skammlífar sápukúlur sem í sífellu er blásið inn í óstöndugan og gegnsæjan ramma. Stundum er „heima“ einmitt ramminn sem maður býr til utan um hverfult lífið, sem líður áfram og umbreytir manni í sífelldri endurnýjun og endursköpun. Önnur verk vísa svo í hvernig það að eiga heima einhvers staðar er stundum ákvörðun, stundum tilfinning, stundum hugarburður, tálsýn eða jafnvel draumsýn, eins og verk Eyglóar Harðardóttur bera vott um. 

Á Íslandi í dag eru 5% landsmanna innflytjendur. Þetta eru um 50 þúsund manns, og eru Pólverjar og Litáar meirihluti þeirra. Við vitum merkilega lítið um hvernig þetta fólk fer að því að samþætta uppruna sinn nýjum heimkynnum hér á landi, hvaða áhrif það hefur að búa yfir marglaga sjálfsmynd með rætur og tengsl við fleiri en eitt land. Að tilheyra mörgum menningarsvæðum og tungumálum á sama tíma og hvaða áhrif það hefur á það hvernig maður skilgreinir og skapar sjálfan sig. Lukas Bury og Gudrita Lape fjalla einmitt um samsett þjóðerni með vísan í margfaldan uppruna, en í verkum þeirra má greina tilfinningu fyrir stöðugu limbó-ástandi, að tilheyra aldrei fullkomlega, að vera einhvern veginn utangátta. Lukas í verkinu Lithuania, my fatherland! þar sem sést aftan á hann horfa yfir einhvern Vestfjarðanna í íslenskri lopapeysu, og Gudrita í verkinu Local Knowledge, sem tengir saman lækningajurtir frá Litáen og Íslandi, og vísar þannig í ólíkar rætur, sem á sinn hátt eru heilandi og nærandi fyrir sjálfsmynd hennar.

Í verki Seweryn Chwała, The Icelandic Dream, sjáum við listamanninn klæddan í frystihússgalla haldandi á málningarspjaldi og penslum. Hér er listamaðurinn að glíma við það sama og flestir aðrir listamenn ströggla við, að skapa rými til að sinna listinni um leið og það þarf að hafa ofan í sig og á. Verkið vekur enn fremur upp áleitnar spurningar um aðgengi erlendra listamanna að íslenskri listasenu, sem getur virkað útilokandi og erfið inngöngu fyrir utanaðkomandi. Í raun eru merkilega fáir þátttakendur í senunni hér á landi frá Austur-Evrópu, miðað við fjöldann sem hér býr. Því er kærkomið að sjá verk eftir slíka listamenn á þessari sýningu. Listakonan Wiola Ujazdowska gerir erlent starfsfólk og stéttskiptingu að viðfangsefni sínu. Verk hennar, The Hive is Burning, vísar beint í lægstu stéttir landsins, sem gjarnan eru samsettar af erlendum iðnaðarmönnum, sem búa við ekkert öryggi eða samtryggingu eins og við hin. Hún notar býflugur sem tákn fyrir þessa stöðu, vinnusöm dýr sem gegna lykilhlutverki í því að viðhalda lífsskilyrðunum fyrir okkur mennina. Verkið, sem er stafrænt prent á textíl, vann hún eftir eldsvoðann við Bræðaborgarstíg þar sem þrír Pólverjar létust fyrir skömmu. 

Það eru verk af þessu tagi sem ég hefði gjarnan viljað sjá meira af á þessari sýningu, verk sem tala beint inn í veruleika fólks af erlendum uppruna. Hugtakið „heima“ er vissulega eldfimt um þessar mundir í íslensku samfélagi, og ætli það sé ekki einmitt vegna hins þrúgandi andrúmslofts, sem umlykur málaflokka eins og fólksflutninga og landvistarleyfi þessa dagana, sem ég hafði væntingar um beittari og pólitískari sýningu. Sýningin inniheldur vissulega fullt af áhugaverðum verkum eftir góða listamenn, en sú tilfinning kemur upp að hér hefði mátt vinna betur með sýningarstjórnun, til dæmis að hafa skýrari sýn á þema sýningarinnar, tengja verkin betur saman og útskýra betur samstarfsferlið og næstu skref í þeirri rannsókn sem sýningin er hluti af. Miðað við metnaðarfullt og afar viðeigandi markmið sýningarinnar og alla þá burðugu lista- og fræðimenn sem í henni taka þátt, hefði hér verið hægt að nýta tækifærið betur til að virkja myndlistina sem það hreyfiafl sem hún getur svo sannarlega verið í samfélagi okkar.