Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þórólfur: „Við erum á þröskuldinum“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Við erum á þröskuldinum við að grípa til harðari sóttvarnaaðgerða. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.  Hann hyggst þó ekki leggja til hertar aðgerðir að svo stöddu.

 

Nýgengi smita, þ.e. sá fjöldi smita sem hefur greinst á hverja 100.000 íbúa undanfarna 14 daga, er nú 103,1. Þórólfur segir það hærri tölu en búist hafði verið við og líklegt sé að Ísland lendi á rauðum listum fleiri landa vegna þessa. Íslandi var bætt á rauðan lista breskra stjórnvalda í gær

28 af þeim sem greindust í gær - 62% -  voru í sóttkví og Þórólfur segir það jákvæða þróun. „Þessi faraldur sem er núna búinn að vera undanfarið er í línulegum vexti, þ.e.a.s. við erum ekki með veldisvöxt. Þetta segir líka það að við erum ekki búin að ná utan um þetta, þetta er enn aukning. Auðvitað hefði maður viljað sjá þessa tölu fara minnkandi en það sem er þó jákvætt er að það er að aukast hlutfallið sem er í sóttkví,“ segir Þórólfur. 

„Þannig að ef það væri þannig að það væru flestir utan sóttkvíar sem væru að greinast þá hefði maður verulegar áhyggjur. En auðvitað hefur maður áhyggjur af þessu og hvort við förum að missa þetta yfir í veldisvöxt og meiri dreifingu.  það þarf í sjálfu sér ekki mikið að bregða út af til að það geti gerst. Og þá er ekkert annað í stöðunni en að leggja tl að gripið verði til harðari takmarkana og meiri lokana,“ segir Þórólfur.

Í minnisblaði sem Þórólfur sendi heilbrigðisráðherra í morgun eru lagðar til óbreyttar aðgerðir að öðru leyti en krár og skemmtistaðir verði opnuð aftur til 11 á kvöldin, ekki verði fleiri þar inni en staðurinn geti tekið í sæti og betur verið hugað að loftgæðum á stöðunum. Áfram eru lagðar til 200 manna fjöldatakmarkanir og eins metra regla.

„Ef það virðist ekki ætla að duga þá gætum við þurft að herða á. Við erum, satt best að segja, á þröskuldnum að þurfa að grípa til miklu harðari aðgerða út af þessari aukningu.“

Hvað gæti ýtt okkur yfir þröskuldinn? „Ég ætla ekki að nefna neina tölu. Það gæti gerst ef við förum að sjá aukningu, ef við förum að sjá að þetta fari yfir í veldisvöxt. Og eins ef við förum að sjá fleiri einstaklinga greinast utan sóttkvíar,“ segir Þórólfur.