Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þjónustusamningur um Herjólf til endurskoðunar

25.09.2020 - 08:08
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Bæjarráð Vestmannaeyjabæjar hefur tilnefnt fulltrúa sína í starfshóp um endurskoðun þjónustusamnings við Vegagerðina um siglingar á milli lands og Eyja. Eyjamenn telja að Vegagerðin eigi að vera viðbótarkostnað við mönnun á skipinu og vilja gera það upp hið fyrsta. Vegagerðin telur sig ekki geta einhliða lagt fram fjárveitingu umfram samninginn.

Morgunblaðið fjallar um málið í dag. Rekstur Vestmanneyjaferjunnar Herjólfs hefur verið þungur á árinu og miklar deilur verið um fyrirkomulag siglinganna. Þá hafa einnig verið kjaradeilur meðal starfsmanna skipsins. Buið er að segja upp öllum starfsmönnum félagsins og eiga þær uppsagnir að taka gildi í nóvember. Vestmannaeyjabær er aðaleigandi Herjólfs og sér um rekstur þess. Herjólfur ohf fór þess á leit við ríkið að það greiði 400 milljónir króna til félagsins vegna vanefnda við þjónustusamning á milli Vegagerðarinnar og Herjólfs ohf auk tekjufalls vegna faraldursins. Þær vanefndir snúa fyrst og fremst að auknum kostnaði vegna mönnunar á skipinu. 

Fjölgað um sex manns í áhöfn

Í þjónustusamningnum er kveðið á um að níu menn skuli vera í áhöfn skipsins hverju sinni, og að áhafnirnar skulu vera þrjár talsins. Ef mönnun yrði önnur skyldi samningsfjárhæðin hækka eða lækka eftir því sem við á. 

Samgöngustofa ákvað að endurskoða fjölda í áhöfninni og fjölga um sex manns í hverri áhöfn. Kostnað við þá fjölgun telur Vestmannaeyjabær sig eiga inni hjá Vegagerðinni og þar með ríkinu. 

Í bókun bæjarráðs Vestmannaeyjabæjar um málið segir eftirfarandi: „Bæjarstjórn leggur þunga áherslu á að útistandandi skuldir Vegagerðarinnar við Herjólf ohf., sem hverfa ekki þrátt fyrir skipun þessa starfshóps, þurfi að gera upp hið fyrsta. Mikilvægt er að sú þjónusta sem tryggð hefur verið í siglingum milli lands og Eyja í dag skerðist ekki, m.a. hvað varðar ferðatíðni og tímaramma ferðaáætlunar, enda er um þjóðveg samfélagsins að ræða og einu samgönguleið sveitarfélagsins að svo stöddu. Æskilegast er að samgönguleiðin sé í höndum heimamanna sem þekkja best þjónustuþörfina á hverjum tíma.“ segir í bókuninni.

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að það sé skilningur lögmanns Vestmannaeyjabæjar að bærinn eigi rétt á greiðslum frá ríkinu vegna vanefnda samningsins. Hins vegar sé það mat lögfræðings Vegagerðarinnar að breytingar á samningnum séu háðar samþykki Alþingis. Ef Vegagerðin eigi að leggja fram aukið fjármagn þurfi að gera breytingar á forsendum samningsins. Bæði bærinn og Vegagerðin hafa nú fallist á að endurskoða samninginn og má gera ráð fyrir að hann verði lagður fyrir þar bær yfirvöld í framhaldinu til fjármögnunar.