Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Taka á móti 100 flóttamönnum í ár – 15 frá Lesbos

25.09.2020 - 15:08
epa08112466 Children help with the laundry in the refugee camp of Moria, on Lesvos island, Greece, 08 January 2020. In the camp, meant to host 2500 migrants and refugees, nowdays are living more than 18,000 people in poor conditions as the temperatures are around six degrees Celsius.  EPA-EFE/ORESTIS PANAGIOTOU  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
Börn í Moria-flóttamannabúðunum á grísku eynni Lesbos. Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Íslenskt stjórnvöld tilkynntu í dag að taka ætti á móti 15 flóttamönnum frá grísku eyjunni Lesbos. Þeir bætast við þá 85 sem ráðgert var að taka á móti hingað til lands í gegnum svokallað kvótaflóttamannakerfi.

Áhersla er lögð á að taka á móti sýrlensku flóttafólki í viðkvæmri stöðu. Fjölskyldurnar bjuggu í Moria-flóttamannabúðunum sem brunnu fyrr í mánuðinum. Í heildina verður tekið á móti 100 flóttamönnum í gegnum kvótaflóttamannakerfið og hefur aldrei verið tekið á móti jafn fjölmennum hópi á einu ári til þessa.

Flóttamannanefnd mun annast undirbúning á móttöku fjölskyldnanna og verður móttaka þeirra unnin í samvinnu við Evrópusambandið og grísk stjórnvöld. Evrópusambandið hafði áður sent frá sér ákall um nauðsyn á flutningi barna og barnafjölskyldna vegna bruna Moria-flóttamannabúðanna. Þá mun Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna vera íslenskum stjórnvöldum innan handar varðandi það hvernig best verður staðið að því að koma fjölskyldunum til landsins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir að stjórnvöld hafi viljað bregðast við ákalli um að taka á móti fólki á flótta frá Lesbos:

„Hér á landi hefur skapast umfangsmikil og dýrmæt þekking þegar kemur að móttöku sýrlenskra fjölskyldna og sú reynsla okkar kemur að góðum notum. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að taka á móti fleira flóttafólki í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem lýst hefur ánægju með móttöku flóttafólks hér á landi,“ segir Katrín í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Flóttamannanefnd heyrir undir félags- og barnamálaráðherra en í nefndinni sitja fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Þá hafa Rauði krossinn á Íslandi, Samband íslenskra sveitarfélaga og Útlendingastofnun áheyrnarfulltrúa í nefndinni.

Fjölga úr 85 í 100 á árinu

Fréttastofa sendi fyrirspurn um stöðu móttöku flóttafólks til Félagsmálaráðuneytisins á dögunum. Í svari ráðuneytisins segir:

„Stjórnvöld ætla að taka á móti 85 kvótaflóttamönnum á þessu ári og var stefnt á að þeir kæmu til landsins í ágúst eða september. Vegna Covid-19 faraldursins hefur ferlið allt tafist. Fulltrúar frá Íslandi hafa ekki getað farið utan til að taka viðtöl og ekki hefur verið hægt að halda samfélagsfræðslu fyrir hópinn. Undirbúningur við móttöku er hafin aftur og verður meðal annars notast við fjarfundabúnað og unnið er að samningi við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (IOM) um að annast flutning, tryggja að hægt sé að taka viðtöl við fjölskyldurnar og tryggja sóttvarnir.“ 

Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að fjölga kvótaflóttamönnum sem tekið er á móti hér á landi og er það markmið að finna í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Árið 2018 tóku stjórnvöld á móti 52 kvótaflóttamönnum, árið 2019 var tekið á móti 74 kvótaflóttamönnum hér á landi og í ár ætla stjórnvöld að taka á móti 85 kvótaflóttamönnum auk þeirra 15 sem bætast við frá Lesbos eins og kemur fram hér að ofan. 

Flestir frá Sýrlandi

Í hópi þeirra 85 sem ráðgert var að taka á móti er stærstur hluti sýrlenskt flóttafólk sem er í Líbanon en Sýrlendingar eru enn fjölmennasta þjóðin sem hefur þörf fyrir vernd. Staða Sýrlendinga í Líbanon fer síversnandi þar sem líbönsk stjórnvöld hafa gripið til aðgerða vegna fjölda flóttafólks í landinu. Má þar nefna að ferðafrelsi flóttafólks hefur verið skert og fyrirtækjum þess verið lokað. Um 55 prósent barna hafa ekki aðgang að formlegri menntun og þar af hafa 40 prósent engan aðgang að menntun, en innan við 5 prósent barna á aldrinum 15–18 ára hafa möguleika á menntun. Efnahagsaðstæður í Líbanon halda áfram að versna. Alls verður tekið á móti 40-45 sýrlenskum flóttamönnum frá Líbanon í ár.

 

Þá verður tekið á móti flóttafólki sem dvelur nú í Keníu. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að 45 þúsund manns séu í brýnni þörf að komast sem flóttafólk frá Keníu á þessu ári. Stofnunin hefur skilgreint fjóra hópa sem eru sérlega viðkvæmir, þ.e. hinsegin flóttafólk, flóttafólk frá Suður-Súdan, flóttafólk sem hefur tekið þátt í stjórnmálum, mannréttindabaráttu og blaðamennsku og flóttafólk frá Sómalíu sem hefur sértækar þarfir. Alls verður tekið á móti um 20 flóttamönnum frá Keníu í ár.

Einnig verður tekið verði á móti afgönsku flóttafólki sem er í Íran. Áætlað er að 2,6 miljónir Afgana séu á flótta en átök í Afganistan hafa staðið yfir í langan tíma og því hafa margir dvalið langtímum saman í flóttamannabúðum. Afganskar konur og stúlkur eru í sérlega viðkvæmri stöðu vegna kynbundins ofbeldis, þvingaðra hjónabanda og annarra hefða sem tengjast uppruna þeirra, kyni og stöðu. Alls verður tekið á móti um 20 afgönskum flóttamönnum frá Íran í ár.