Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Starfshópur leggi til breytingar á sóttvarnarlögum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Skýra ber ákvæði núgildandi sóttvarnalaga um valdheimildir stjórnvalda varðandi opinberar sóttvarnarráðstafanir. Þetta er meðal verkefna starfshóps sem heilbrigðisráðherra skipar auk þess að gera drög að frumvarpi til breytinga á lögunum.

Hópurinn hefur þegar tekið til starfa. Álitsgerð Páls Hreinssonar lögfræðings þar að lútandi verður lögð til grundvallar vinnu starfshópsins. Þar er fjallað um valdheimildir ráðherra og sóttvarnalæknis í samspili við heimildir lögreglu og annarra yfirvalda til að framfylgja þeim.

Auk þess hafði Páll hliðsjón af skáðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar, mannréttindaákvæðum stjórnarskrár og alþjóðasamningum. 

Formaður starfshópsins er Sigurður Kári Árnason. Aðrir fulltrúar eru Dagrún Hálfdánardóttir, tilnefnd af embætti landlæknis, Inga Þórey Óskarsdóttir, tilnefnd af dómsmálaráðuneytinu, Haraldur Briem, tilnefndur af sóttvarnalækni, Ólafur Baldursson, tilnefndur af Landspítala, Sigríður Dóra Magnúsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Víðir Reynisson, tilnefndur af embætti ríkislögreglustjóra.

Starfsmaður hópsins er Rögnvaldur G. Gunnarsson. Drögum að frumvarpi ber að skila til ráðherra fyrir 1. desember.