Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Snemmbúinn haustgaddur á Þingvöllum

25.09.2020 - 13:11
Mynd með færslu
 Mynd: RUV/Eddi - RUV
Talsvert frost var á Þingvöllum í nótt. Frost mældist á mæli við þjónustumiðstöðina níu og hálf gráða. Veðurfræðingur segir þetta vera með almesta frosti sem mælst hefur í byggð á þessum árstíma í fjóra áratugi og veltir því fyrir sér hvort að kuldamet í byggð hafi verið slegið á þessum árstíma.

Landsmenn hafa víða verið minntir á það undanfarna daga að vetur konungur er skammt undan. Hiti á landinu fer sífellt lækkandi og víða hefur fönn látið sjá sig, sér í lagi norðanlands og austan. 

Á Þingvöllum eru aðeins örfáir dagar síðan fólk tíndi ber og naut haustblíðunnar, en í nótt mældist frost við þjónustumiðstöð Þingvalla níu og hálft stig. Einar Sveinbjörnsson veltir því fyrir sér í pistli á Facebook síðu sinni hvort að það sé kuldamet á þessum árstíma í byggð. Í samantekt hans kemur fram að frost hafi mælst níu komma sjö gráður á Möðrudal á Fjöllum árið 1982. Þá hafi frost mælst ríflega 10 stig í september á Hveravöllum í eitt skipti hið minnsta.

22. september 2018 mældist frost á Þingvöllum 8,7 stig. Einar segir að sú mæling hafi verið mesta frost sem þar hefur mælst í september frá upphafi. Forstið í nótt er tæpri einni gráðu meira. 

Snemma í morgun fór frost niður í 3 gráður í Reykjavík. Það er kaldasta septembernótt frá árinu 2005 þegar frost mældist 3,4 gráður. Það er yfir höfuð ekki algengt að hiti fari niður fyrir frostmark í Reykjavík í september. Samkvæmt því sem Einar segir hefur það aðeins gerst þrisvar til fjórum sinnum seinustu tuttugu ár.

 

Mynd með færslu
Skjáskot af færslu Einars.