Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Smitstuðull þriðju bylgjunnar náði nýjum hæðum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Smitstuðull þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins náði nýjum hæðum fyrir rúmri viku þegar hann mældist 6. Hann er núna á hraðri niðurleið. Mest hefur smitstuðullinn hér á landi verið 4 sem var í annarri bylgjunni í sumar. Thor Aspelund, prófessor í líftölufræði, telur nauðsynlegt að fylgjast betur með smithraðanum en áður því hugsanlega verði næstu bylgjur öðruvísi.

Ekki birtist nýtt spálíkan á vefnum covid.hi.is í dag. 

Þar er hins vegar að finna upplýsingar um svokallaðan smitstuðul í bylgjunum þremur.  Í faraldsfræðinni er smitstuðull notaður til að lýsa meðalfjölda þeirra sem smitast frá næsta smitbera. 

Þessi stuðull hefur ekki verið notaður mikið hér á landi en í Bretlandi er horft mikið til hans þegar staðan á faraldrinum er metin hverju sinni. Ef stuðullinn helst í einum telst það ásættanlegt, ef hann fer upp fyrir einn þýðir það að eitthvað sé að gerast.

Thor Aspelund, sem hefur verið í forsvari fyrir spálíkanið, segir í samtali við fréttastofu að mögulega þurfi að fylgjast betur með þessu en áður til að átta sig á smithraðanum. „Þess vegna erum við svolítið óróleg núna vegna þess að hann fór hátt.“  

Smitstuðullinn mældist nefnilega 6 fyrir viku síðan eða svo og hefur aldrei mælst svona hár.  „Það er svakalega hár smitstuðll,“ segir Thor sem telur hugsanlegt að hann hafi verið togaður upp af ofurdreifara-atburði á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur. Slíkur atburður hefur ekki sést oft áður hér á landi en ofurdreifari er einn einstaklingur sem sýkir mjög marga og þeir geta verið fleiri en einn.

Thor bendir samt á að í fyrstu bylgjunni hafi smitstuðullinn farið upp í tvo sem er það sama og stuðullinn er í núna. „En þá voru margir smitaðir.  Það má líkja henni við stóran höfuðstól með þokkalega vexti, “ segir Thor.  Þriðja bylgjan hafi því verið eins og lítill höfuðstóll með þokkalega mikla vexti. 

Fram kemur á covid.hi.is að smitstuðullinn utan sóttkvíar fari lækkandi þótt óvissan sé talsverð.  Þessa lækkun megi líklega rekja til öflugrar smitrakningar og aukinnar vitundarvakningar um persónubundnar sóttvarnir í samfélaginu. „En við viljum ná honum undir 1. Þá förum við að verða sátt.“

Og það vekur athygli hversu árangursrík aðgerð sóttkví er upp á smitstuðull því hjá fólki í sóttkví er hann aðeins 0,6. Sem þýðir að smitaður í sóttkví smitar nánast ekki út frá sér.  Thor segir að þau hafi tekið þessa tölu út fyrir sviga til að meta hinn smitstuðulinn.  „Fólk í sóttkví eru samkvæmt þessu ekki jafn miklir smitarar. Auðvitað geta orðið slys eins og að manneskja smiti maka og amma eða afi smitist af foreldrunum þegar þau eru að hjálpa með börnin.“

Seinni bylgjurnar tvær hafa verið bornar uppi af tveimur afbrigðum af kórónuveirunni sem greinst hafa við raðgreiningu hjá Íslenskri erfðagreiningu; annars vegar „grænu veirunni“ sem kom upp á Akranesi og Hótel Rangá og hins vegar afbrigði sem barst til landsins með tveimur frönskum ferðamönnum.   Mun minna greinist af „grænu veirunni“ en hinni þessa dagana. 

Þeir sem hafa greinst í þriðju bylgjunni hefur mikið til verið yngra fólk. Það hefur verið með mikið veirumagn og því mjög smitandi. Það hefur hins vegar ekki verið mjög veikt.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV