Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir uppsögn jafngilda ófriðaryfirlýsingu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir það boða mikinn ófrið á vinnumarkaði, komi til þess að aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins segi Lífskjarasamningnum upp. Samninganefnd ASÍ fundaði í morgun og þar var einhugur um þessa afstöðu. 

Atkvæðagreiðsla aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins um uppsögn samningsins hefst á mánudaginn. Verði það samþykkt og hafi samkomulag ekki náðst fyrir klukkan fjögur á miðvikudaginn munu þau segja samningnum upp. 

Drífa segir að ASÍ hafi verið í viðbrögðum við ástandinu vegna kórónuveirufaraldursins í marga mánuði. „Við höfum átt samtal við atvinnurekendur og við höfum átt samtal við stjórnvöld. Við höfum náð saman í mikilvægum málum, sértækum málum til að taka á þeirri stöðu sem uppi er núna. Við vitum að allir eru að taka skellinn; launafólk, atvinnurekendur og ríkiskassinn. Launafólk hefur mátt sæta kjaraskerðingum í formi minni yfirvinnu  osfrv. Þannig að við höfum sagt það, og höldum við það, að atvinnugreinar og landsvæði eru í ólíkri stöðu. Þess vegna þarf sértækar aðgerðir og það er sannarlega það sem við höfum verið að leggjast á árarnar með öll sem eitt síðustu mánuði og munum halda því áfram, óháð kjarasamningum.“

Fyrirsjáanleiki mikilvægur

Drífa segir mikilvægt að atvinnulífið, ekki síst  launafólk, búi við fyrirsjáanleika og að ekki ríki óvissuástand. „Þess vegna er það skynsamlegasta sem hægt er að gera núna að halda til streitu þeim kjarasamningum sem eru í gildi og að þær hóflegu launahækkanir sem eiga að koma til framkvæmda geri það.“

Þannig að það kemur ekki til greina hjá ykkur að endurskoða eða fresta næstu launahækkunum í Lífskjarasamningunum?  „Við sjáum ekki tilefni til þess. Það var markmið Lífskjarasamninganna að hækka lægstu laun sérstaklega. Við höldum áfram á þeirri braut þannig að þær hækkanir sem koma til framkvæmda 1. janúar eru líka hækkun á lægstu laun sérstaklega. Það er ein skynsamlegasta efnahagsaðgerðin sem hægt er að grípa til akkúrat núna. Það er einmitt að hækka lægstu laun, þeir fjármunir skila sér beint út í samfélagið, beint inn í efnahagslífið í aukinni neyslu, auknum viðskiptum við fyrirtæki.“

Til í það sem koma skal

Drífa segist sannfærð um að ekki sé samstaða meðal atvinnurekenda um hvort það eigi að frysta launahækkanir. „Það eru mjög margir atvinnurekendur í þeirri stöðu að þeir treysta á það að fólk haldi áfram að stunda viðskipti hér innanlands enda er ekki úr öðrum löndum að moða.“

Fari svo að aðildarfyrirtæki SA segi upp samningunum - hvað áttu von á að gerist? „Í fyrsta lagi tel ég að það sé mjög óábyrg afstaða hjá atvinnurekendum ef þeir ætla að segja upp samningum. Við erum hins vegar til í það sem koma skal en með þessu er hætta á að atvinnurekendur séu að boða mikinn ófrið á vinnumarkaði.“