Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýr bankaleki, sama sagan

25.09.2020 - 17:45
Mynd: EPA / EPA
Þetta er að verða fastur liður: efni úr leka eða frá uppljóstrara sýnir hvernig bankar, í samspili við aflandsvæðingu, þjónusta viðskiptavini með illa fengið fé. Bankarnir birta nánast orðrétt fyrri yfirlýsingar um að nú hafi þeir tekið sig á. Nýr leki frá bandarískri eftirlitsstofnun sýnir að varnir gegn peningaþvætti eru mjög haldlitlar því bankarnir telja sig fylgja reglum um leið og þeir gæta þess vandlega að líta framhjá samhengi viðskiptanna.

Skýrslur um grunsamleg umsvif, aflátsbréf bankanna

Fyrir um 500 árum var sala aflátsbréfa góður tekjustofn fyrir kaþólsku kirkjuna. Í stað þess að afplána syndir sínar gátu þeir sem höfðu efni á keypt sér syndaaflausn. Fyrir banka eru skýrslur um grunsamlegar hreyfingar, ,,suspicious activity report,“ nokkurs konar aflátsbréf.

Skýrslurnar sýna að bankarnir framfylgja reglum um peningaþvætti og viðskipti fólks með pólitísk tengsl. Tilkynna yfirvöldum um grunsamleg viðskipti, skrifa hverja skýrsluna á fætur annarri til eftirlitsstofnana, vel vitandi að skýrslurnar hafa sjaldnast nokkur eftirmál fyrir bankana.

Bankarnir horfa, án þess að sjá

Í stað þess að banki tilkynni viðskiptavininum að ekki sé til dæmis hægt að sannreyna uppruna peninganna eða tilgang greiðslu og því ekki hægt að miðla henni þá afgreiðir bankinn viðskiptin hamingjusamlega gegnum ærnum þóknunum og telur sig svo fara að lögum með skýrsluskilum. Afar sjaldgæft að bankar hætti viðskiptum við einstaklinga þó öll heilbrigð skynsemi bendi til þess að verið sé að brjóta lög. Bankarnir horfa, án þess að sjá.

FinCEN skjölin, nýr leki

Efnið er á döfinni eftir að tvö þúsund slíkum skýrslum um grunsamleg viðskipti var lekið frá bandarískri eftirlitsstofnun, Financial Crimes Enforcement Network, FinCEN. FinCEN skjölunum var komið til vefritsins Buzzfeed sem upplýsir ekki hvaðan skjölin koma. Í janúar játaði fyrrum starfskona FinCEN sig seka um leka fyrir dómi í New York, hún talin heimildamaðurinn.

Efnið unnið af 400 blaðamönnum um allan heim

Sem fyrr skipulagði International Consortium of Investigative Journalists, samtök rannsóknarblaðamanna, úrvinnslu lekans. Síðan á sunnudaginn var hafa fjölmiðlar um allan heim birt efni uppúr þessum skýrslum, unnið af tæplega 400 blaðamönnum.

Við fyrstu sýn ekki vísbendingar um íslenska aðila í skjölunum

Andstætt Panamaskjölunum, sem komu frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca, þá eru nöfnin í FinCEN skjölunum yfirleitt nöfn á félögum, ekki einstaklingum. Spegillinn spurðist óformlega fyrir hvort þar væru íslensk nöfn, virðist ekki vera við fyrstu sýn.

Bretland, staðfest þungamiðja alþjóðlegs peningaþvættis

Það kemur ekki á óvart að ekkert land kemur jafn oft við sögu í skýrslunum og Bretland, þungamiðjan í flestum nýlegum peningaþvættissmálum, til dæmis í peningaþvætti Danske Bank fyrir rússneska skuggabaldra. Já, Danske Bank kemur við sögu í nýja lekanum, líka Barclays, HSBC og Deutsche Bank, allt bankar sem hafa orðið marguppvísir að peningaþvætti.

Spurningar til Johnson: hvað eru breskar eftirlitsstofnanir eiginlega að gera?

Breski íhaldsþingmaðurinn Mel Stride formaður fjármálanefndar breska þingsins hefur skrifað Boris Johnson forsætisráðherra til að spyrja hvað breskar eftirlitsstofnanir séu eiginlega að gera í þessum efnum. Stride bendir á að í skjölunum sé athugasemd bandarískra yfirvalda um að Bretland sé há-áhættuland varðandi peningaþvætti. Heldur ófögur lýsing.

Ekki fyrsta vísbendingin um tengsl Rússa við breska Íhaldsflokkinn

Ein FinCEN-sagan varðar tengsl Rússa við breska Íhaldsflokkinn, ekki fyrsta slíka vísbendingin. Maður er nefndur Vladimir Chernukhin; virðist hafa fengið milljónagreiðslur, í pundum talið, frá Rússa sem sætir bandarísku viðskiptabanni og er náinn Vladimir Pútín Rússlandsforseta. Eiginkonan, Lubov Chernukhin, hefur allra kvenna mest styrkt breska Íhaldsflokkinn undanfarin ár. Alls lagt flokknum til 1,7 milljónir punda, rúmlega 300 milljónir króna.

Að kaupa sér tennisleik við forsætisráðherra fyrir 28 milljónir króna

Chernukin er breskur ríkisborgari og svar Íhaldsflokksins er að flokkar megi þiggja styrki breskra ríkisborgara. Styrkir Chernukins hafa meðal annars falist í að kaupa tíma með núverandi forsætisráðherra og tveimur forverum hans: tennis við Johnson og David Cameron og kvennakvöld með Theresu May og nokkrum kvenráðherrum og flokkssystrum May. Chernukhin greiddi flokknum rúmlega 28 milljónir króna, 160 þúsund pund fyrir tennisleik við Johnson.

Án banka, tæplega meiri glæpastarfsemi en vasaþjófnaður

En hver eru áhrif þess að stórir og öflugir bankar styðja glæpamenn og spillta stjórnmálamenn? Í stuttu máli: samspil þjónustu bankanna og aflandsvæðingar gerir ill verk möguleg. Án banka er ekki hægt að senda fé úr stað og án þess er erfitt að stunda mikið stórbrotnari glæpi en vasaþjófnað. Hryðjuverk verða ekki stunduð án banka, svo dæmi séu nefnd.

Yfirvöld á Vesturlöndum gætu beitt sér – en gera það ekki

Íranski lögfræðingurinn og baráttukonan Shirin Ebadi hlaut friðarverðlaun Nóbels 2003. Í viðtali við Spegilinn fyrir nokkrum árum sagði Ebadi að það besta sem vestrænar þjóðir gætu gert til að berjast gegn spillingu utan Vesturlanda væri að hindra að vestrænir bankar flyttu fé úr landi fyrir spillingaröflin. FinCEN skjölin sýna að það er fjarri því að yfirvöld á Vesturlöndum beiti sér sem skyldi gegn peningaþvætti.