Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Neitar sök vegna íkveikju og manndrápa

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Maður sem ákærður er fyrir íkveikju og manndráp vegna eldsvoðans sem kostaði þrjár manneskjur lífið í húsi á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu í Reykjavík í sumar neitaði sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Maðurinn kvað sig saklausan af báðum liðum ákærunnar, íkveikju og manndrápi.

Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 25. júní, daginn sem eldurinn kviknaði í húsinu. Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur manninum í síðustu viku. Þar er honum gefin að sök íkveikja og manndráp á þremur manneskjum. Eftir því sem næst verður komist hefur enginn verið ákærður fyrir að drepa jafn marga í seinni tíma réttarfarssögu á Íslandi. 

Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Verjandi mannsins fór fram á að þinghaldið í málinu væri lokað. Það gerði hann með þeim rökum að maðurinn hefði verið metinn ósakhæfur á verknaðarstundu.

Eftir eldsvoðann var efnt til samstöðufunda með láglaunafólki sem býr í vafasömu húsnæði. Krafist var úrbóta til að tryggja stöðu fólks sem býr í slíkri aðstöðu. 

10: 42 Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum um kröfu um lokað þinghald.