Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikilvægt að koma í veg fyrir átök á vinnumarkaði

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Ríkisstjórnin hyggst ræða við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið vegna ágreinings þeirra um stöðu lífskjarasamningsins. Ekki sé tímabært að boða tilteknar aðgerðir stjórnvalda.

Forsætisráðherra segir að mikilvægast sé að koma í veg fyrir að vinnumarkaðurinn leysist upp í átök. Samtöl hafa verið milli aðila í dag og búist er við að þau haldi áfram um helgina.

Allt stefnir í að SA segi upp lífskjarasamningnum um mánaðamót. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það verulegt áhyggjuefni og boðar að stjórnvöld muni ræða við aðila vinnumarkaðarins vegna þeirrar stöðu sem upp er komin. Ekki sé búið að ákveða fundartíma en hann verði væntanlega fyrr en síðar.

Katrín Jakobsdóttir segir stjórnvöld hafa staðið við þær yfirlýsingar sem þau gerðu í tengslum við kjarasamningana, úrbótum sé ýmist lokið eða þær í vinnslu. Stöðugt og reglubundið samráð hafi verið haft við aðila vinnumarkaðarins um gang þeirra mála.

Það sé aðilanna sjálfra að meta aðrar forsendur kjarasamninganna og það skuli þeir gera við samningaborðið. Ríkið muni funda með aðilum til að fara yfir stöðuna og þá möguleika sem fyrir hendi séu til að koma í veg fyrir átök.

Katrín segir ótímabært að ræða hvort ríkið muni greiða umsamdar launahækkanir, frysta laun eða bregðast við með einhverjum öðrum hætti. „Kjarasamningar eru gerðir af hverjum og einum aðila en ríkið hefur fylgt leiðarljósi lífskjarasamninganna,“ segir Katrín. Mikilvægast sé að koma í veg fyrir að vinnumarkaðurinn leysist upp í átök.