Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Metfjöldi doktora brautskráðist skólaárið 2018 til 2019

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Ingvarsson - Háskóli Íslands
Aldrei hafa fleiri lokið doktorsprófi við íslenska háskóla en skólaárið 2018-2019. Alls voru 4.370 nemendur brautskráðir, með 4.408 háskólapróf á öllum stigum.

Í tölum frá Hagstofu Íslands kemur fram að 101 útskrifuðaðist með doktorspróf, eða fjörutíu fleiri en árið áður. Sumir voru brautskráðir sem doktorar frá íslenskum háskólum í samstarfi við erlenda háskóla. Fjórir af hverjum tíu nýdoktorum eru fæddir erlendis og eiga erlenda foreldra. Því teljast þau hafa innflytjendabakgrunn.

Tveir af hverjum þremur nemendum sem luku háskólaprófi skólaárið 2018-2019 voru konur. Svipað kynjahlutfall er í framhaldsskólum landsins þar sem konur eru sextíu prósent þeirra sem útskrifast. Sífellt fleiri undir nítján ára aldri útskrifast úr framhaldsskólum eftir að nám var stytt í þrjú ár.

Ríflega 3.800 útskrifuðust með stúdentspróf á skólaárinu, örlítið færri en árið áður. Nemendum sem útskrifuðust með sveinspróf fækkaði örlítið, en fjórir af hverjum fimm þeirra eru karlar.

Alls útskrifuðust 625 en nokkur fjölgun í öðrum réttindaprófum á framhaldsskólastigi og þar er kynjaskipting brautskráðra nokkuð jöfn.