Lygavefur millistéttarinnar liðast í sundur

Mynd: Benedikt / Benedikt

Lygavefur millistéttarinnar liðast í sundur

25.09.2020 - 08:54

Höfundar

Það er mikill fengur að þýðingu Höllu Kjartansdóttur á nýjustu bók metsöluhöfundarins Elenu Ferrante, Lygalíf fullorðinna, að mati bókarýnis Víðsjár. „Þetta er listavel gert, vefurinn er flókinn og spennandi, án þess að lesandinn missi þráðinn.“

Gauti Kristmannsson skrifar: 

Bölvun unglingsáranna hefur löngum verið yrkisefni rithöfunda, en vera kann að Elena Ferrante, hver sem hún er, nái utan um þá þeytivindingu lífsins betur en aðrir, alveg frá því að J.D. Salinger var og hét. Lífið var flókið fyrir Holden Caulfield, en er enn flóknara hjá Giovönnu í þessari nýjustu bók Ferrante, Lygalífi fullorðinna. Hún var vitaskuld á þessum slóðum að hluta í fjórleiknum sínum fræga um þær Elenu og Lilu, fjórleik sem allur er kominn út á íslensku og auk þess hafa komið út þrjár bækur til viðbótar að þessari meðtaldri. Sjö bækur eftir einn ítalskan höfund á fimm árum á Íslandi, það verður seint leikið eftir; meira að segja Harry Potter kom ekki svona hratt út, muni ég rétt.

Firring stofukommanna

Lygalíf fullorðinna er á einu sviði þroskasaga unglingsstúlku, en það eru margar aðrar hæðir í þessari bók, það er, sem fyrr, borgin, Napolí, fjölskyldan og fjötrar hennar, kirkjan, arfleifðin og ýmislegt fleira. Til að mynda er spennandi að fylgjast með afbyggingu menntastéttarinnar hér; Giovanna er afsprengi menntamanna, kennara, ágætlegra settra og settlegra í borg óreiðunnar, Napolí. En í sögu föðurfjölskyldu hennar eru demónar, sérstaklega einn mefistótelískur karakter, föðursystirin Vittoria, sem umbyltir lífi hennar, fjölskyldunnar og margra fleiri, raunar. Afbygging miðstéttarinnar er hugsanlega tímanna tákn þótt sögutíminn sé vísast nær þeim sem birtist í fjórleiknum. En við fáum að sjá hvernig unglingurinn sér og skynjar samræður og skoðanir þeirra sem einu sinni voru kallaðir stofukommar, og firringu þeirra frá lífinu svo notað sé gamalt marxískt hugtak. Smám saman áttar unglingurinn sig á lygavefnum sem heldur tilveru fjölskyldunnar saman og liðast síðan í sundur, fyrir tilstilli hennar sjálfrar, með góðri hjálp frá frænku. Þetta er listavel gert, vefurinn er flókinn og spennandi, án þess að lesandinn missi þráðinn og það er sérstaklega eftirtektarvert að sjá hvernig höfundurinn heldur honum saman með stefjum sem endurtekin eru frá upphafi til enda.

Dæmi um þetta er armband sem fer frá einum eiganda til annars söguna á enda, fallegt armband sem tengist því sem ósagt er eða logið á hverjum tíma; það hefur engan táknrænan kraft í sjálfu sér, er einungis armband, en öðlast þennan kraft á leið sinni í gegnum söguna, táknmynd svika og drauma um ást, oft ást í meinum. Höfundi tekst að gera þetta yfirlætislaust, þetta er allan tímann bara hlutur, en það sem manneskjurnar gera við það er það sem skiptir máli. Samt er eins og það sé örlagavaldur sögunnar. Sögukonan orðar það svo þegar hún talar um armbandið: „Hver svo sem saga þess var – hvort sem hún teldist ævintýri, áhugaverð saga eða fjarstæða – afhjúpaði hún umfram allt að hold okkar lætur lífið gleypa sig og ginna til að gera heimskulega hluti sem það ætti ekki að gera“ (148).

Mynd með færslu
 Mynd: Benedikt
Lygalíf fullorðinna er sjöunda bók Elenu Ferrante sem kemur út á íslensku.

Tímalínan er býsna skýr, endurlit sögukonunnar í þessari fyrstu persónu frásögn eru oftast einfaldlega minningar innan hvers tíma, söguþráðurinn er þannig beinn og tekur yfir sirka þrjú ár í lífi Giovönnu til sextán ára aldurs. Söguhetjan fer frá ástandi sakleysis til sjálfstæðis á þessum tíma, þannig að þroskasagan er mjög klassísk að þessu leyti. Sjarmi sögunnar felst frekar í hinum flóknu samskiptum, fjölskylduböndum og stéttaskiptingu í Napolí, en það er þó flestallt Vesturlandabúum kunnugt, millistétt menntafólks er að minnsta kosti lítið frábrugðin þeirri sem við þekkjum hér, uppeldisaðferðir svipaðar, fjarveran vegna vinnu svipuð, kröfurnar til unglinganna svipaðar. Við getum vel séð okkur sjálf í þessu fólki þótt sumar þvinganir samfélagsins séu örlítið öðruvísi.

Ekki vantar heldur líkamleikann í söguna, einhvern tíma sagði kona mér eitthvað á þá leið að sögur Elenu Ferrante næðu hvað best utan um líkamsreynslu ungra kvenna á leið til þroska og það á sannarlega vel við í þessu tilfelli, hér er ekkert rómantíserað, sjálfskynjunin er blátt áfram og hiklaus og sögukonan er ekki afsakandi eitt augnablik, en dramatíserar það heldur alls ekki, þvert á móti. Það er töluverð íronía fólgin í krítík á upplýsingarhugmyndir menntafólksins sem tröllríða orðræðu þess; unglingsstúlkan var til að mynda upplýst um hvernig börnin verða til þegar á sjöunda ári. Þannig er millistéttarumhverfið í apollonísku hlutverki á meðan tilfinningagos Giovönnu og ekki síður Vittoriu frænku taka að sér hið kaotíska, ekki fjarri klassískri greiningu femínisma á staðalmyndum kynjahlutverkanna. Sérlega fyndið augnablik felst í til dæmis í samræðum Giovönnu og vinkvenna hennar þegar fyrsta stóra sprengjan vegna framhjáhalds springur í fjölskyldum þeirra. Örlítil tilvitnun: „Hvorki ég, Angela né Ida botnuðum neitt í því hvers vegna marxisminn og allt hitt sem foreldrar okkar höfðu allt rætt af mikilli innlifun alveg frá því áður en við fæddumst, hefði allt í einu valdið svona miklu uppnámi“ (133).

Afhjúpun lyganna splundrar tilverunni

En eins og titillinn ber með sér hverfist sagan um lygina, hvernig lygin lifir áfram, eitrar og spillir, aftur án allrar dramatíkur og sögukonan unga kemst sjálf að einfaldri niðurstöðu: „Lygar og aftur lygar, fullorðna fólkið bannar manni að ljúga en lýgur sjálft eins og það er langt til“ (168). Reyndar lýgur hún töluvert sjálf, strax og hún áttar sig á ómöguleika hreinskilninnar, en þær lygar eiga rót að rekja til gömlu lyganna sem reynt er að halda undir heitu pottloki tilverunnar, án árangurs. Þetta er þó engin mórölsk predikun, langt í frá, einfaldlega raunsæ frásagnargreining á lyginni sem lífstilraun, tilraun sem heldur um tíma en fellur svo inn í sjálfa sig og umhverfir öllu. Lygin er uppfinning og stundum gagnleg, við höfum séð það æ betur í stjórnmálum samtímans, en fjölskyldulygarnar í þessari sögu gagnast aðeins um tíma, á yfirborði tilveru sem þolir ekki sannleikann þegar til á að taka. Það er tragískt því lyginni er einmitt ætlað að viðhalda þeirri tilveru, en splundrar henni þegar hún er afhjúpuð.

Ég get ekki borið þýðingu Höllu Kjartansdóttur saman við frumtextann frekar en stór meirihluti lesenda. Ég get þó sagt að hún er greinilega fumlaus og trú íslenskri málvenju án þess að vekja nokkra tortryggni; setningabygging og orðatiltæki standast samhengi innan textans; þessi lesandi hnaut ekki um neitt sem vakti spurningar og stíllinn er sannfærandi. Það er því fengur að þessari nýjustu þýðingu á stormsveipnum Elenu Ferrante, rétt eins og hinum fyrri; ég er viss um að margir eiga eftir að njóta hennar fersku vindhviða á íslensku, nú sem áður.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Undirliggjandi ofsi í þroskasögu Ferrante

Leiklist

Vigdís og Unnur í aðalhlutverkum Ferrante-sýningar

Sjónvarp

Nýjasta bók Ferrante á leiðinni á Netflix

Bókmenntir

Þýðandi Ferrante bjó sig undir vonbrigði