Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Loka göngu- og dagdeild skurðlækninga á Landsspítala

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Loka þarf göngudeild skurðlækinga B3 á Landspítalanum í Fossvogi, sem er sérhæfð göngudeildarþjónusta vegna greiningar og meðferðar á vegum háls- nef og eyrnalækna, heila- og taugaskurðlækna, lýtalækna og taugaskurðlækna.

Jafnframt hefur dagdeild skurðlækninga A5 verið lokað. Þar er tekið á móti sjúklingum sem leggjast inn til skurðaðgerðar á sjúkrahúsinu. 

Allmörg ný smit greindust meðal starfsfólks í gær, að sögn Hlífar Steingrímsdóttur framkvæmdastjóri aðgerðasviðs. Þess vegna varð að fjölga enn í hópi þess starfsfólks sem fer í sóttkví.

Það þýðir að fresta þarf um 87 aðgerðum en bráðaaðgerðir verða gerðar áfram. Til að bregðast við stöðunni þarf að flytja til starfsemi innanhúss og unnið er að endurskipulagningu.

Hlíf segir þetta vera í fyrsta sinn sem heilum deildum er lokað en heildarsamdrátturinn er minni en í vor. Þá var starfsemi allra göngudeilda sjúkrahússins dregin saman um allt að átt vikna skeið.  

Sýni verða tekin úr starfsfólki eftir sjö daga. Reynist það þá neikvætt er því heimilt að snúa aftur til starfa gegn því að öllum sérstökum varúðarráðstöfunum innanhúss sé fylgt.