Khedr-fjölskyldan fær að vera á Íslandi

25.09.2020 - 11:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kehdr-fjölskyldan frá Egyptalandi fær að vera á Íslandi. Það var ákveðið í gær.

„Þau geta komið úr felum, þetta mál er unnið. Krakkarnir geta farið aftur í skólann. Þetta eru gríðarlega góð tíðindi og nú heldur lífið áfram hjá þeim,“ segir Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar.

Það átti að vísa fjölskyldunni á brott frá Íslandi fyrir einni viku. Þau fóru þá í felur og lögreglan gat ekki fundið þau.

Margir mótmæltu því að fjölskyldan yrði send úr landi. Fólki fannst að börnin ættu að fá að vera á Íslandi. Hér líður þeim vel, þeim gengur vel í skólanum og þau eiga vini. Fólki fannst að það ætti ekki að senda þau til Egyptalands af því að þau væru ekki eins örugg um líf sitt þar.

„Þetta er mikill sigur fyrir fjölskylduna og ekki síður mikill sigur fyrir íslenskt samfélag að mínum dómi, og þann samtakamátt sem oft verður til hér. Fjölskyldan kann öllum þeim sem veitti henni stuðning í þessu máli miklar, miklar þakkir,“ segir Magnús.

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi