Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hvaða fertugi karl byrjar að vinna í Húsdýragarðinum?

Mynd: Glass River / Euro-garðurinn

Hvaða fertugi karl byrjar að vinna í Húsdýragarðinum?

25.09.2020 - 11:17

Höfundar

Grínistinn Dóri DNA skellihló sjálfur þegar hann horfði á Euro-garðinn, nýjan gamanþátt sem frumsýndur er á Stöð 2 um helgina en Dóri fer sjálfur með eitt aðalhlutverk þeirra. Þegar leið á þáttinn brast hann hinsvegar í grát enda eru þættirnir ljúfsárir að hans sögn, bæði sprenghlægilegir og dramatískir. Anna Svava, meðleikari Dóra, kennir þó rauðvíninu um tárin.

Í Euro-garðinum er sagt frá drykkfelldum braskara, sem Jóni Gnarr leikur, með vafasaman viðskiptaferil. Braskarinn gerir sér lítið fyrir og kaupir Húsdýragarðinn í Laugardal og er með stór plön um framtíð og þróun hans. Þó ekki að flytja þangað ísbjörn eins og Jón lofaði að gera þegar hann tók við borgarstjóraembætti Reykjavíkur, heldur að breyta honum í Disney-skemmtigarð. Dóri DNA og Anna Svava Knútsdóttir eru á meðal þeirra sem að þættinum standa og þau kíktu í Morgunútvarpið á Rás 2 og sögðu frá ferlinu. Dóri lýsir þáttunum sem lítilli ástarsögu um einfaldan mann sem er að missa tökin á raunveruleikanum og áttar sig á að hann hefur breytt rangt í lífinu. Anna og Dóri eru á meðal þeirra sem leika starsfólk húsdýragarðsins sem er enn óbeislaðra en dýrin sem það á að sjá um.

Hló meira eftir því sem rauðvínsflöskum fjölgaði

„Það var skemmtilegast í þessu að fá að búa til okkar eigin karakter. Þetta gekk geggjað vel, Fríða er best,“ segir Anna Svava stolt. Dóri tekur undir og lofar góðri skemmtun um helgina. „Við vorum að tala um að ofselja þetta ekki eins og allt íslenskt en við horfðum á seríuna um daginn og ég hló sjálfur mikið,“ segir hann. „Þú hlóst samt meira eftir því sem rauðvínsflöskunum fjölgaði,“ skýtur Anna Svava inn. „Já, og svo fór ég að gráta í lokin,“ viðurkennir Dóri.

Hárprúður Auðunn Blöndal

Þættirnir eru átta talsins og segja þau þá byrja vel en verða enn sterkari eftir því sem líður á seríuna. „Því meira sem þér þykir vænt um persónurnar fer þetta að verða skemmtilegra og fyndara,“ segir Anna. En það eru ekki allir skrýtnar skrúfur í húsdýragarði Euro-garðsins. Auðunn Blöndal leikur starfsmanninn sem kemur nýr inn í starfsmannateymið og áttar sig á því hvað allir eru undarlegir enda nokkuð eðlilegur sjálfur. En það sem áhorfendum mun þykja nokkuð óvenjulegt við Auðunn sjálfan er að hann skartar þykku hári í þáttunum en ekki sínum fræga skalla. „Nútímatæknin. Það var einhverju jukki gluðað á hann og hann allt í einu kominn með hár,“ segir Dóri.

Þóttist vera rosalega reiður

Þó serían sé grátleg á köflum er hún að mestu leyti grín og stundum svo fyndin að það varð ómögulegt fyrir leikarahópinn að leika senurnar, þau hlógu svo mikið sjálf. Jafnvel svo mikið að einu sinni þurfti leikstjórinn, Arnór Pálmi Arnarsson, sem einnig leikstýrir Ráðherranum á RÚV, að byrsta sig við leikarahópinn. Eða það héldu þau allavega sjálf. „Þetta var þannig að tökuliðið var fyrir utan herbergið og leikararnir inni. Við vorum búin að eyðileggja tökur svona fimm sinnum í röð og það er dýrt, þetta kostar peninga. Svo kom Arnór og skammaði okkur þvílíkt og mér leið svo illa og hugsaði: Ókei, í næstu töku geri ég þetta,“ rifjar Anna Svava upp. „Í næstu töku heyri ég tökuliðið flissa og þá var hann bara að þykjast vera rosalega reiður.“

Fyrsti þátturinn fer í loftið á sunnudag kl. 19.15 á Stöð 2. „Þú getur horft á þetta og skipt svo beint yfir á Ráðherrann á RÚV,“ stingur Anna Svava upp á.

Rætt var við Dóra DNA og Önnu Svövu Knútsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Sjáðu Boga og Ólaf Harðar spinna í Ráðherranum

Tónlist

„Ég á alveg fyrir mjólkursopanum“

Sjónvarp

Ólafur Darri á nálum yfir Ráðherranum

Sjónvarp

„Magnað hvernig eineltið situr í mér“