Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hin íhaldssama Barrett í sæti Ginsburg

25.09.2020 - 23:36
epa08692241 A handout photo provided by the University of Notre Dame Law School shows potential US Supreme Court nominee and current US Court of Appeals for the Seventh Circuit Judge Amy Coney Barrett (2-L) during her investiture as judge for the US Court of Appeals for the Seventh Circuit in the Patrick F. McCartan Courtroom at Notre Dame Law School in South Bend, Indiana, USA, in February 2018 (issued 23 September 2020). US President Donald J. Trump will announce his choice for the replacement for Justice Ruth Bader Ginsburg at the White House in Washington, DC on 26 September 2020. According to media reports Judge Amy Coney Barrett has emerged as US President Trump's favorite.  EPA-EFE/UNIVERSITY OF NOTRE DAME LAW SCHOOL / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UNIVERSITY OF NOTRE DAME LAW SCH
Amy Coney Barrett verður að öllum líkindum tilnefnd í sæti Ruth Bader Ginsburg í hæstarétti Bandaríkjanna samkvæmt heimildum fjölmiðla vestanhafs. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar að ljóstra upp um tilnefninguna á morgun.

New York Times greinir frá því að forsetinn hafi átt fund með Barrett í Hvíta húsinu í vikunni og litist vel á hana. Íhaldssamir framámenn í Repúblikanaflokknum lýstu henni fyrir forsetanum sem kvenkyns Antonin Scalia. Scalia var hæstaréttardómari þar til hann lést árið 2016, og vann Barrett sem aðstoðarkona hans um tíma. 

Yngst og reynsluminnst

Hún nýtur mikillar virðingar meðal íhaldssamra dómara, segir í grein New York Times um hana. Hún hóf störf fyrir Scalia fyrir 22 árum, og var uppáhaldið hans samkvæmt samstarfsmönnum hennar á þeim tíma. Barrett útskrifaðist með láði frá lagadeild Notre Dame háskólans í Indiana og hóf svo kennslustörf við skólann árið 2002. Samstarfsmenn hennar segja hana hafa verið slyngan kennara og lögspeking, þrátt fyrir að hafa ekki alltaf verið sammála henni. Dómaraferill Barrett spannar aðeins þrjú ár, en hún var tilnefnd af Trump í áfrýjunardómstól árið 2017. 48 ára gömul verður hún því bæði yngsti og reynsluminnsti dómari hæstaréttar.

Ný rödd kvendómara

Tilnefning hennar er talin eiga eftir að vekja mikla lukku meðal íhaldssamra kristinna Bandaríkjamanna og hópa sem eru andvígir þungunarrofi. Marjorie Dannenfelser, formaður samtaka andstæðinga þungunarrofs, segir Barrett fullkomna blöndu snilldar lögspekings og konu sem mætir með önnur rök fyrir hæstarétt en þeir kvendómarar sem þar sitja fyrir.

Flýtimeðferð á þingi

Tilnefning dómara svo skömmu fyrir kosningar er fordæmalaus. Aðeins 38 dagar eru þar til Bandaríkjamenn kjósa um næsta forseta, og þykir flestum rétt að sá sem hefur betur í kosningunum velji staðgengil Ginsburg. Barack Obama, forveri Trumps, tilnefndi Merrick Garland í sæti Scalia 237 dögum fyrir síðustu kosningar. Repúblikönum þótti þá algjör fásinna að Obama fengi að tilnefna dómara, og sögðu næsta forseta eiga að velja hann. Það hefur þó gerst að dómarar séu valdir á kosningaári, en aldrei síðar en í júlí.

Trump leggur sjálfur mikla áherslu á að níundi dómarinn verði sestur í hæstarétt áður en forsetakosningarnar verða 3. nóvember. Hann telur miklar líkur á því að úrslit kosninganna verði útkljáð fyrir dómstólnum.