Helmingurinn með 533 til 859 þúsund á mánuði

25.09.2020 - 09:55
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Helmingur launafólks var með heildarlaun á bilinu 533 til 859 þúsund krónur á mánuði í fyrra fyrir fulla vinnu samkvæmt greiningu Hagstofunnar. Tíundi hver launamaður var með 1.128 þúsund krónur á mánuði en tíu prósent með laun undir 432 þúsund krónum.

Þetta má sjá í tölum Hagstofunnar um dreifingu launa fullvinnandi launafólks. Þar eru talin með öll laun einstaklings, þar á meðal yfirvinna, ákvæðisvinna og orlofs- og desemberuppbót. Hlunnindi eru hins vegar utan viðmiðunarinnar.

Meðalheildarlaun fyrir fulla vinnu voru 754 þúsund krónur á mánuði í fyrra en miðgildi launa var 665 þúsund krónur. 64 prósent launafólks voru með heildarlaun undir meðallaunum. Það er álíka hlutfall og síðustu fimm árin þar á undan.

Meðal heildarlaun hækkuðu úr 563 þúsund krónum á mánuði árið 2014 í 726 þúsund krónur í fyrra. Tíu prósent voru með laun undir 321 þúsund krónum árið 2014 en þau viðmið voru komin í 432 þúsund krónur í fyrra. Á sama tíma hækkuðu neðri mörk í heildarlaunum þeirra tíu prósenta sem höfðu hæst laun úr 852 þúsund krónum í 1.128 þúsund á mánuði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi