Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hagsmunamat barnanna hafi verið í mýflugumynd

25.09.2020 - 09:17
Mynd: RÚV / RÚV
Magnús D.Norðdal lögmaður Egypsku fjölskyldunnar sem fékk dvalarleyfi hér á landi í gær segir að í máli Egypsku Kehdr-fjölskyldunnar og fleiri málum sé mat á hagsmunum barnanna af hálfu stjórnvalda í mýflugumynd. Hagsmunamat ætti að endurtaka á síðari stigum í meðferð mála.

Rætt var við Magnús í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Magnús segir að rök kærunefndarinnar um að veita fjölskyldunni dvalarleyfi hafi verið að nefndin leit svo að á að hætta væri á að stúlkan yrði fyrir kynfæralimlestingum. Þetta atriði hafði ekki verið fjallað um áður.   

Því þarf að taka málið upp að nýju. Þannig lengist málsmeðferðartíminn umfram þann tíma sem miðað er við. Því er fjölskyldunni veitt dvalarleyfi hér á landi en einnig á grundvelli mannúðar. Magnús segir að mat á hagsmunum barnanna af hálfu stjórnvalda hafi verið í mýflugumynd. 

„Það er skylda á stjórnvöldum með vísna til barnasáttmála SÞ og barnalaga að framkvæma sjálfstætt og heilstætt mat og finna út úr því hvað er best, þ.e.a.s. hvað er þessu barni fyrir bestu. Það er mitt álit að í þessu máli og í mörgum málum sem varða börn á flótta að þetta mat sé ekki fullnægjandi. En það er von okkar að mál eins og þetta sem hefur ýtt við stjórnvöldum og samfélaginu að það leiði til þess að stjórnvöld hugi betur að þessu mati á hagsmunum barna. Það tel ég og von að komi út úr þessu máli.“ segir Magnús.

Með sterkt mál í höndunum

Hann segir að mál fjölskyldunnar hafi verið sterkt og að það hefði mjög líklega unnist fyrir dómstólum. Staða föðurins hafi verið vanmetin og hagsmunamat barnanna verið ófullnægjandi. Hann segir að þetta sé ekki eina málið af þessu tagi. 

„Ég held að þessi staða hefði ekki komið upp í þessu máli ef það hefði farið fram fullnægjandi mat á hagsmunum barnanna. Það er eitthvað sem þarf að gera, ekki bara í upphafi heldur einmitt líka síðar þegar tíminn líður þá á að framkvæma nýtt hagsmunamat þegar börnin hafa aðlagast. Ef að slíkt mat hefði farið fram þá værum við ekki í þessari stöðu. Það er auðvitað ólíðandi að hingað skuli fjölskyldur koma sem eru hérna í þetta langan tíma, krakkarnir aðlagast, festa hér rætur, eignast vini, upplifa Ísland sem sitt heimaland og eru síðan rifin upp með rótum. Ef hagsmunamatið fer fram í upphafi, og svo aftur á síðari stigum þá hefði þetta ekki komið upp  ef það hefðu verið hagsmunir barnanna sem höfðu ráðið“ segir Magnús.

Hann segir að fjölskyldan sé í skýjunum með það að hafa fengið dvalarleyfi hér á landi. Börnin hlakki mikið til að komast aftur í skólann, hvort sem það verður í dag eða eftir helgina.