Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fimm frekar haustleg fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Bella Union - Will You Return

Fimm frekar haustleg fyrir helgina

25.09.2020 - 11:50

Höfundar

Það er haustlegt í Fimmunni að þessu sinni og boðið upp á hlýlega heimastemningu í tilefni af því. Í boði er leyniband sem var víst að senda frá sér plötu ársins, sígilt sýruband í stemningu, kanadískur bræðingur, maður sem dansar við sjálfan sig og eðalþunglyndi frá Liverpool.

Sault – Free

Gagnrýnandi Guardian er á því að Untitled (Rise), önnur plata Sault-hópsins á árinu (hin var tvöföld), sé plata ársins. Nú skal ég ekkert segja um það þó Free sé vissulega frábært. Aftur á móti er ljóst að þetta enska listaprójekt frá þessum óþekkta hópi sem vill ekki láta nafns síns getið og passar vel upp á það, er alveg frekar spennandi og lætur auk þess allan ágóða renna til góðra málefna.


The Flaming Lips – Will You Return / When You Come Down

American Head er nýjasta plata The Flaming Lips og er frekar skemmtileg, því eins og venjulega gera þeir bara nákvæmlega það sem þeir nenna að gera eins og leitandi listafólk ætti að gera. Sá punktur gerir þá að einu skemmtilegasta bandi heimsins fimmta áratuginn í röð og þó þessir flippkisar kúki reglulega upp á bak og séu mistækir, þá er ekki annað hægt en að elska þá.


Charlotte Day Wilson – Summertime

Yfir til Toronto í Kanada þar sem við finnum Charlotte Day Wilson sem hefur verið að senda frá sér tónlist út í óvissuna síðan á árinu 2018. Hún mallar saman alls konar áhrifum frá r&b, jazzi og sálartónlist í sinn indí-folk bræðing sem hentar vel að hausti, svona vinalegur og hlýr.


Matt Berninger – One More Second

Sólóplata Matts Berningers úr The National Serpentines Prison er alveg að fara að detta en hún kemur um miðjan október. One More Second er nýjasti söngullinn og sýnir Matt dansa við sjálfan sig til að gleyma.


King Hannah – Crème Brûlée

Liverpool-dúettinn King Hannah er alveg með klassískt þunglyndisindí á hreinu í nýja laginu sínu, Crème Brûlée. Þau gætu svei mér þá verið börn Jesus & Mary Chain og Mazzy Star ef svona popparabarna popparar myndu einhvern tíma lifa af pressuna og gera eitthvað af viti.


Fimman á Spottanum