Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Faraldurinn er þjálfunarbúðir í þrautseigju

25.09.2020 - 10:59
Margir framhaldsskólanemar sakna félagslífs og tækifæra til að eignast nýja vini vegna fjöldatakmarkana og sóttvarnaraðgerða. Bóas Valdórsson, sálfræðingur við Menntaskólann í Hamrahlíð, segir í viðtali í Kastljósi að ástandinu fylgi þó líka kostir; faraldurinn sé í raun þjálfunarbúðir fyrir ungt fólk í þrautseigju og því að takast á við óvæntar aðstæður.

Unglingar bera að mörgu leyti hitann og þungann af sóttvarnaraðgerðum yfirvalda. Framhaldsskólarnir eru ekki svipur hjá sjón, þótt flestir þeirra reyni að láta hluta kennslunnar fara fram í skólanum. Stór hluti fer þó fram í fjarnámi. Bekkjum er skipt upp og skólum deilt í sóttvarnarhólf, allir þurfa að bera grímur, og svo eru öll böll og skemmtanir bannaðar. Bóas segir að margir upplifi þetta sem missi. 

„Margir koma í framhaldsskóla ekki bara út af náminu, heldur líka með væntingar um að kynnast nýjum skólafélögum, mynda sterk vináttutengsl og upplifa nýja hluti. Maður verður að líta til þess og hvetja ungt fólk til að vera frumlegt og nýta þær samskiptaleiðir sem eru færar, það má fara í sund, það má æfa íþróttir, það má hittast fyrir utan skólann í litlum hópum,“ segir Bóas.

Eins og samningsbrot

Missirinn sé sárastur fyrir nýnemana, sem eigi erfiðara með að eignast nýja vini og fóta sig í skólanum. Bóas líkir því við að ráða sig í nýja vinnu, en komast síðan að því á fyrsta vinnudegi að ekkert sé eins og samið var um. Hann segir að bæði skólar og foreldrar þurfi að hvetja unglingana til að nýta þær leiðir sem séu færar til að eiga samskipti og njóta lífsins, og komast þannig í gegnum veturinn.

Bóas segir of snemmt að segja til um hvort ástandið verði unglingunum fjötur um fót, eða hvort brottfall úr skólunum aukist. Honum virðist unga fólkið taka þessum aðstæðum af aðdáunarverðu æðruleysi:

„Þessar aðstæður í samfélaginu eru í raun tilraunastofa fyrir þrautseigju og hvernig við tökumst á við krefjandi verkefni sem koma í fangið á okkur. Maður getur ímyndað sér líka að þetta séu alveg brjálæðislega góðar þjálfunarbúðir fyrir ungt fólk og okkur sem samfélag til að takast á við óvæntar aðstæður, sem reyna á þolinmæði okkar og úthald og kannski frumlega hugsun til að takast á við það og leysa.“

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV