Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Eldri borgarar í Moskvu eiga að halda sig heima

25.09.2020 - 14:30
epa08463015 An elderly woman undergoes a COVID-19 coronavirus swab test at the 191 hospital in Moscow, Russia 03 June 2020, amid the ongoing coronavirus COVID-19 pandemic. Moscow Mayor Sergei Sobyanin allowed the opening of parks and announced a resumption of work of industrial and construction enterprises recalling that a high incidence rate remains in the capital.  EPA-EFE/MAXIM SHIPENKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sergei Sobyanin, borgarstjóri í Moskvu, fyrirskipaði í dag að borgarbúar, sem orðnir eru sextíu og fimm ára og eldri, haldi sig sem mest heima frá og með næsta mánudegi. Einnig mæltist hann til þess að þeir sem geta sinnt vinnu sinni heima geri það.

Kórónuveirutilfellum hefur fjölgað mjög í Moskvu upp á síðkastið eftir að ástandið hafði verið tiltölulega gott um skeið. Alls greindust 1.050 með kórónuveiruna í borginni í gær. Þeir hafa ekki verið svo margir síðan í júní. 

Að sögn borgarstjórans hefur innlögnum á sjúkrahús fjölgað mjög að undanförnu. Þar af leiðandi væri þeim sem hættast væri við smiti, eldri borgurum og fólki með undirliggjandi sjúkdóma, skipað að halda sig heima. Hátt í átta hundruð borgarbúar hafa verið lagðir inn á sjúkrahús með COVID-19 síðastliðinn sólarhring.

Kórónuveirusmitum hefur fjölgað víðar í Rússlandi en í höfuðborginni að undanförnu. Þau voru 7.212 síðasta sólarhring. Yfir 1,1 milljón hefur smitast í landinu frá því að heimsfaraldurinn blossaði upp. Einungis í Bandaríkjunum, Brasilíu og á Indlandi eru þau fleiri. 

Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar, sagði á fundi með fréttamönnum í dag að engar áætlanir væru uppi um að fyrirskipa útgöngubann í landinu þrátt fyrir smitum færi fjölgandi.
 

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV