
Eldri borgarar í Moskvu eiga að halda sig heima
Kórónuveirutilfellum hefur fjölgað mjög í Moskvu upp á síðkastið eftir að ástandið hafði verið tiltölulega gott um skeið. Alls greindust 1.050 með kórónuveiruna í borginni í gær. Þeir hafa ekki verið svo margir síðan í júní.
Að sögn borgarstjórans hefur innlögnum á sjúkrahús fjölgað mjög að undanförnu. Þar af leiðandi væri þeim sem hættast væri við smiti, eldri borgurum og fólki með undirliggjandi sjúkdóma, skipað að halda sig heima. Hátt í átta hundruð borgarbúar hafa verið lagðir inn á sjúkrahús með COVID-19 síðastliðinn sólarhring.
Kórónuveirusmitum hefur fjölgað víðar í Rússlandi en í höfuðborginni að undanförnu. Þau voru 7.212 síðasta sólarhring. Yfir 1,1 milljón hefur smitast í landinu frá því að heimsfaraldurinn blossaði upp. Einungis í Bandaríkjunum, Brasilíu og á Indlandi eru þau fleiri.
Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar, sagði á fundi með fréttamönnum í dag að engar áætlanir væru uppi um að fyrirskipa útgöngubann í landinu þrátt fyrir smitum færi fjölgandi.