Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Eimskip hafnar ásökunum um lögbrot

25.09.2020 - 14:17
Innlent · eimskip · Goðafoss · Kveikur · Laxfoss · Skip · Umhverfismál
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í tilkynningu sem Eimskip sendi til Kauphallarinnar í dag kemur fram að félagið hafni ásökunum sem fjallað var um í Kveik í gær um brot á lögum um meðhöndlun úrgangs. Þar segir einnig að félagið hafi ekki haft upplýsingar um kæru Umhverfisstofnunar á hendur því fyrr en eftir samtal við stofnunina fyrr í dag og að stofnunin hafi ekki aflað neinna gagna frá Eimskipi vegna málsins.

Segjast ekki hafa komið nálægt ákvörðun um að farga skipunum

Einnig kemur fram að Eimskip hafi reynt að selja skipin Goðafoss og Laxfoss í töluverðan tíma í gegnum alþjóðlega skipamiðlara. Í lok árs 2019 hafi skipin verið seld og nýr eigandi tekið við rekstri þeirra í upphafi þessa árs.

„Samhliða sölunni gerði Eimskip samning um að leigja þau meðan beðið var eftir afhendingu nýrra skipa. Sökum óvæntra og óhagstæðra markaðsaðstæðna skilaði Eimskip skipunum úr leigu til eiganda á vormánuðum, fyrr en upphaflega var gert ráð fyrir. Í kjölfarið tók eigandi skipanna ákvörðun um að selja skipin í endurvinnslu á Indlandi og kom Eimskip hvergi nálægt þeirri ákvörðun né með hvaða hætti skipin tvö voru endurunnin,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Seldu skipin í hendur alræmds milliliðar

Greint var frá því í Kveik í gær að Eimskip hefði farið á svig við evrópskar reglur og fargað tveimur risastórum gámaflutningaskipum, Goðafossi og Laxfossi, á sandströnd við Indland. Félagið hefði selt skipin tvö til alþjóðafyrirtækisins GMS sem sérhæfir sig í því að vera milliliður; kaupir skip og selur áfram til niðurrifs á ströndum Asíu. GMS hefði keypt skipin í gegnum skúffufélög skráð í Monróvíu í Líberíu. Eimskip hefði nýtt skipin áfram þar til í byrjun maí þegar þeim var siglt til Alang-strandarinnar á Indlandi.

„Þar er aðdjúpt og sjávarföll kjörin til þess að stíma skipum til niðurrifs upp í sandinn og rífa þar fyrir góðan pening. Ódýrt vinnuafl og litlar sem engar kostnaðarsamar mengunarvarnir, tryggja það. Farandverkamenn í þúsundatali sjá um það, á því sem nefnt hefur verið, „hættulegasti vinnustaður heims“ af Sameinuðu þjóðunum og Alþjóðasambandi iðnverkafólks. Slys og dauðsföll eru tíð, enda lítið sem ekkert hugað að öryggi starfsmanna sem notast mest við gasskurðartæki, berhentir og illa varðir, við niðurrif risaskipanna hér. Sjávarföllin og sandurinn, sjá svo um að hreinsa út og taka við olíu, þungmálmum og hættulegum spilliefnum úr opnum skipsskrokkunum,“ segir í umfjöllun Kveiks.