Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Áslaug Arna vill endurskoða meðferð útlendingamála

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ráðist verður fljótlega í endurskoðun á meðferð hælisumsókna og meðferð útlendingamála í heild sinni. Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Hún segir að mál Khedr-fjölskyldunnar frá Egyptalandi, sem fékk dvalarleyfi hér á landi í gær eftir að hafa farið í felur þegar vísa átti þeim úr landi, hafi gefið tilefni til þessa. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist samgleðjast fjölskyldunni. Endurmeta þurfi lögin reglulega.

Áslaug Arna segir málið hvetja til þess að kerfið verði endurskoðað, ekki síst langur málsmeðferðartími, og að það verði gert fljótlega. Hún segir að sú afstaða sín til þess, að þetta tiltekna mál krefðist ekki kerfisbreytinga, hefði breyst. 

„Við skoðum auðvitað mál sem koma upp til að skoða kerfið í heildina og það gefur oft mynd af því hverju þarf að breyta. Og það, að málið sé ekki búið á þeim stjórnsýslustigum sem ráðgert var í nóvember, gefur tilefni til að skoða kerfið og ýmsa þætti þess,“ segir Áslaug Arna.

Hún segist ekki geta tjáð sig um hvort hún fagnaði því að fjölskyldan hefði nú fengið dvalarleyfi. „Sem fyrr tjái ég mig ekki um einstaka mál. Málin eru ekki sérstaklega á borði ráðherra eitt og sér. En við þurfum að skoða kerfið í heild sinni.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir málið sýna nauðsyn þess að ræða útlendingamál á heildstæðan hátt. Umræðan snúist yfirleitt um einstök mál.

„Ég samgleðst þeim. Það voru auðvitað bara mín fyrstu viðbrögð þegar ég heyrði þetta. En hins vegar held ég að þessi umræða sýni okkur að það er mikil þörf á að við nálgumst umræðuna um útlendingamál heildstætt. Lögin sem við erum að starfa samkvæmt eru lög um útlendinga sem samþykkt voru fyrir 4 árum og í mjög góðri þverpólitískri sátt. Í ljósi þess að umræðan sem hefur spunnist um framkvæmd þessara laga snýst yfirleitt um einstaklingsmál. Það er mjög mikilvægt að við tökum umræðuna upp úr því og reynum að horfa heildstætt á kerfið okkar. Við þurfum að vera meðvituð um það að það þarf að meta reglulega þessa framkvæmd laganna,“ segir Katrín.