Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ætla að óska eftir skýringum frá Eimskip

25.09.2020 - 19:50
Laxfoss, gamli Dettifoss, við Alang í Indlandi.
 Mynd: Kveikur/Youtube
Stærstu lífeyrissjóðir landsins ætla að óska eftir skýringum frá stjórnendum Eimskips um meint brot félagsins á lögum um meðhöndlun úrgangs vegna tveggja skipa þess. Stjórnendur Eimskips hafna ásökunum um lögbrot.

 

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallaði um málið í gær. Þar kom fram að Eimskipafélagið notaði alþjóðlega fyrirtækið GMS sem millilið til komast fram hjá evrópskum reglum við förgun skipanna. Skipin hafa síðustu mánuði staðið á Alang-strönd á Indlandi þar sem þau hafa verið rifin í brotajárn. Fjöldi alþjóðasamtaka og stofnana hafa fordæmt aðstæður á ströndinni. Þar er lítið um mengunarvarnir og ekki gætt að öryggi þeirra sem þar vinna.

Umhverfisstofnun hefur kært málið og Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfesti í samtali við fréttastofu að embættið hefði það nú til meðferðar.

Eimskip hafnar hins vegar öllum ásökunum í tilkynningu sem send var Kauphöllinni í dag. Þar segir að skipin hafi verið seld til GMS í lok síðasta árs. Eimskip hafi hins vegar leigt þau á meðan beðið var eftir afhendingu nýrra skipa. Þeirri leigu hafi lokið í vor og þá hafi Eimskip ekki haft frekari afskipti af þessum skipum.

Alls eiga 11 lífeyrissjóðir samtals ríflega helming allra hlutabréfa í Eimskip, en þar eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi og LSR stærstir.

Sjóðirnir fylgja allir fjárfestingarstefnu þar sem meðal annars er kveðið á um umhverfis- og samfélagslega ábyrgð.

Harpa Jónsdóttir framkvæmdastjóri LSR segir að sjóðurinn líti málið alvarlegum augum og að kallað verði eftir skýringum frá stjórnendum Eimskips. Forráðamenn annarra lífeyrissjóða sem fréttastofa talaði við í dag tóku í sama streng.

Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna hefur óskað eftir fundi í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til að ræða þessar ásakanir. Hann segir alvarlegt ef að í ljós kemur að Eimskip hafi farið gegn alþjóðasamningum.

„Annars vegar snýr þetta að umhverfis- og mengunarþættinum sem er stórt og mikið mál en kannski ekki síst að aðbúnaði fólksins sem býr þarna. Við hér í þessu forréttindalífi sem að við lifum hér uppi á Íslandi ættum að sjá sóma okkar í því að taka ekki þátt í neinu svona,“ segir Kolbeinn.

Hlutabréf í Eimskip lækkuðu um tæp fimm prósent í Kauphöllinni í dag. Forstjóri félagsins baðst hins vegar undan viðtali þegar eftir því var leitað í dag.