Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Aðskilnaður eykst í sænskum skólum

25.09.2020 - 17:00
Mynd: EPA / EPA
Aðskilnaður í sænska skólakerfinu hefur aukist hratt síðustu tíu ár. Fjórði hver grunnskólanemandi í Svíþjóð er nú í skóla þar sem greinilegur aðskilnaður ríkir hvað varðar uppruna og menntunarstig foreldra.

Hlutfallið allt 93%

Borås er ríflega hundrað þúsund manna borg skammt austur af Gautaborg, þekkt fyrir textílframleiðslu og dýragarð sem þar er. Tæpur þriðjungur þeirra sem búa í Borås fæddist erlendis eða á foreldra sem fæddust erlendis

Í skólum borgarinnar er hlutfall nemenda með erlenda bakgrunn þó ansi hreint misjafnt. Í sumum skólum í Borås er það innan við sjö prósent. Í öðrum skólum næstum allir. Hæst er hlutfall nemenda sem eru fæddir erlendis, eða eiga foreldra sem eru fæddir erlendis, 93 prósent.

Þegar kemur að menntunarstigi foreldra er munurinn ekki alveg svona mikill. En samt mikill. Þar sem hlutfall foreldra með framhaldsmenntun er lægst, er það sextán prósent. En hæst yfir sjötíu prósent.

Það er þetta sem átt er við þegar talað er um greinilegan aðskilnað innan sænska skólakerfisins.

Fréttamenn sænska ríkisútvarpsins hófu í vikunni umfjöllum um aðskilnað í skólakerfinu. Þeir sendu út spurningalista til sænskra sveitarfélaga sem lang flest svöruðu. Kannað var hve margir nemendur í hinum ýmsu grunnskólum landsins eru fæddir erlendis eða eiga foreldra sem eru fæddir erlendis; og hver margir eiga foreldra sem fóru í framhaldsnám eftir menntaskóla. Þetta var borið saman við meðaltalið í sveitarfélaginu í heild og ef munurinn reyndist tuttugu prósentustig eða meira, þá taldist vera um greinilegan aðskilnað að ræða í viðkomandi skóla.

Aðskilnaðurinn eykst

Aðskilnaður í sænska skólakerfinu hefur aukist hratt síðustu tíu ár. Fyrir tíu árum gekk fimmti hver nemandi í Svíþjóð í skóla þar sem það ríkti greinilegur aðskilnaður. Nú er það fjórði hver. Í sumum sveitarfélögum hefur aðskilnaðurinn aukist enn meira, eins og í Borås. Næstum sextíu prósent grunnskólanemenda í borginni eru nú í skólum þar sem greinilegur aðskilnaður er, út frá uppruna eða menntunarstigi foreldra. Fyrir tíu árum var einnan við fjórðungur nemenda í slíkum skólum.
 

Þær ástæður sem helst eru nefndar fyrir aðskilnaðinum eru efnahagslegar. Fólk getur valið að senda börnin sín í einkaskóla - sem er algengara meðal þeirra tekjuhærri. Eða að fólk sendir börnin í hverfisskóla. Og þá skiptir auðvitað máli hvar maður býr. Það er dýrara að búa í sumum hverfum heldur en öðrum. Og innan hvers hverfis býr oft einsleitur hópur fólks. Í sumum hverfum er mikið um einbýlishús, öðrum fjölbýlishús. Heilu hverfin eru oft í eigu leigufélaga og svo eru sum þar sem efnahagsleg og félagsleg staða íbúanna er einfaldlega mjög bágborin.

Aðgerðir skila ekki árangri

Yfirvöld hafa samt reynt ýmislegt til að vinna gegn aðskilnaði í skólakerfinu. Á síðustu 10 árum hafa að minnsta kosti 62 sveitarfélög látið loka grunnskólum eða byggt nýja grunnskóla gagngert til að vinna gegn aðskilnaði. Þær aðgerðir hafa þó ekki alltaf skilað tilætluðum árangri.  Í Borås var til að mynda gripið til þess ráðs fyrir nokkrum árum að loka skóla, þar sem hlutfall nemenda með erlendan bakgrunn var mjög hátt. Nemendurnir sem höfðu verið þar byrjuðu í öðrum skóla þar sem mikill meirihluti nemenda átti foreldra sem fæddir voru hér í Svíþjóð. En þá brá svo við að mörg þeirra barna sem fyrir voru, hættu í skólanum og voru send í einkarekinn skóla í staðinn.

Foreldrar sem fréttamenn sænska ríkisútvarpsins ræddu við sögðust hafa haft áhyggjur af því að börnin þeirra myndu fá verri menntun. Nýju nemendurnir, með erlenda upprunann, þyrftu kannski svo mikla athygli og aðstoð að börnin sem fyrir voru gætu orðið út undan.

Þessar áhyggjur eru kannski ekki alveg úr lausu loft gripnar. Þó raunin sé reyndar sú að það eru nemendur með erlendan bakgrunn sem virðast hafa verri aðgengi að hæfum kennurum. Umfjöllun sænska ríkisútvarpsins leiddi nefnilega í ljós að í skólum þar sem fáir nemendur eru með erlendan bakgrunn, og menntunarstig foreldra er hátt, þar er líka hærra hlutfall kennaranna með kennsluréttindi. Í skólum þar sem fleiri nemendur eru með erlendan bakgrunn og foreldrarnir almennt með minni menntun - þar eru líka færri kennarar með kennsluréttindi.
 

Fá ekki nægilega aðstoð

Sænska ríkisútvarpið ræddi við konu sem byrjaði að kenna, án réttinda, í gegnum starfsmannaleigu þegar hún var aðeins 19 ára gömul. Hún kenndi í Botkyrka - fátæku úthverfi í Stokkhólmi þar sem sextíu prósent íbúa eru með útlendan bakgrunn. 
Hún sagði að margir af nemendum sínum hafi ekki fengið þá hjálp frá kennurum sem þeir þurftu.

Sérfræðingar í menntamálum vara við því að þessi aðstöðumunur muni leiða til enn meiri aðskilnaðar þegar kemur að menntun og einkunnum. Og það myndi hafa afleiðingar bæði fyrir einstaka nemendur og fyrir samfélagið í heild.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV