37 starfsmenn Skattsins í sóttkví

25.09.2020 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
37 starfsmenn hjá Skattinum hafa verið sendir í sóttkví eftir að einn starfsmaður greindist með COVID-19. Starfsfólkið fer í skimun á mánudaginn og Elín Alma Arthursdóttir, vararíkisskattstjóri og sviðsstjóri álagningarsviðs, segir í samtali við fréttastofu að starfsfólkið vinni heima eftir því sem hægt er og að starfsemi stofnunarinnar skerðist lítið sem ekkert vegna þessa.

Hugsast má að fleiri hafi verið sendir í sóttkví en þurfa: „Við ákváðum að fara varkárari leiðina, og tökum enga áhættu“ segir Elín. Allir þeir sem starfi á sömu hæð og sá smitaði í höfuðstöðvum Skattsins á Laugavegi séu í sóttkví, enda hafi hann verið í vinnunni rétt áður en hann greindist.

Elín segir að búið hafi verið að skipta vinnustaðnum í sóttvarnahólf eftir hæðum: „Við höfum verið að vanda okkur mjög mikið og höfum verið heppin hingað til. Vonandi gengur þetta fljótt yfir.“ Þá segist hún ekki vita til þess að neitt þeirra sem er í sóttkví finni fyrir einkennum eins og stendur. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi