Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonast eftir COVID-hundum til Íslands

24.09.2020 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra vonast til að fá sérþjálfaða COVID-leitarhunda til landsins gefi þeir góða raun erlendis. Lögreglan hefur verið í stöðugu sambandi við stofnanir í Bretlandi sem þjálfa hunda og rannsaka hvort þeir geti Orðið að liði í greiningu kórónuveirusýna. Fyrstu niðurstöður benda til að hundarnir greini jákvæð sýni með um 90 prósenta nákvæmni. COVID-leitarhundar tóku til starfa á flugvellinum í Helsinki í Finnlandi í gær.

Hundur góð afsökun í útgöngubanni

Eigendum gæludýra, sérstaklega hunda, fjölgaði hratt víða um heim þegar fyrsta bylgja kórónuveirufaraldursins skall á af fullum þunga. Þar sem útgöngu- og samkomubann var hvað strangast virtust margir átta sig á að hundar væru ekki bara góður félagsskapur, sem allt í einu var orðinn af skornum skammti, heldur höfðu eigendur þeirra auk þess gilda afsökun fyrir því að fara út fyrir hússins dyr án þess að brjóta sóttvarnarlög. Það varð nefnilega löggild ástæða til útivistar í útgöngubanni að viðra hundinn, rétt eins og að sækja vinnu og kaupa lyf eða mat.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Það má alltaf viðra hundinn, líka í faraldri.

Þefa af þurrkum í flugstöðinni

Nú hafa evrópskir vísindamenn fundið hundun enn eitt hlutverkið í faraldrinum. Í Finnlandi er til að mynda búið að þjálfa leitarhunda til að þefa uppi kórónuveiruna í fólki á flugvellinum í Helskinki. Mbl greindi frá finnsku vinnuhundunum í gærkvöld og vitnaði í grein New York Times. Hundarnir tóku á móti flugfarþegum í fyrsta sinn í gær. COVID-hundaprófið virðist öllu huggulegra en það sem við eigum að venjast; að fá pinna ofan í kok og upp í nef. Þó gæti þetta valdið kvíðatilfinningu hjá þeim farþegum sem koma með eitthvað mun ólöglegra en kórónuveirusýkingu inn í landið. Þá hljómar pinninn kannski betur. 

COVID-hundarnir leita veiruna uppi með því að þefa af þurrkum sem farþegar strjúka um hálsinn við komuna til landsins. Ferlið tekur í heild um 10 mínútur, frá því að hundurinn þefar þar til lokið er heldur frjálslegri greiningu, sem er mun styttra en sú sýnataka sem við flest þekkjum. Ef hundurinn gefur merki um veiruna er viðkomandi farþega vísað á heilsugæslustöð flugvallarins í veirupróf.

Greina COVID hjá einkennalausum

Anna Hielm-Bjorkman, vísindamaður við Háskólann í Helsinki, segir í viðtali við New York Times, að hundarnir hafi fundið smit hjá einkennalausum einstaklingum, jafnvel þeim sem hafi mælst neikvæðir í fyrstu sýnatökum. Þá er vitnað í rannsókn dýralæknaháskólans í Hannover í Þýskalandi, þar sem hundar gátu greint smit í um 95% tilvika eftir einungis vikulanga þjálfun.

Sniffer dogs named K'ssi, left and Miina react with trainer Susanna Paavilainen at the Helsinki airport in Vantaa, Finland, Tuesday, Sept. 22, 2020. Four corona sniffer dogs are trained to detect the Covid-19 virus from the arriving passengers samples at the airport.  (Antti Aimo-Koivisto/Lehtikuva via AP)
 Mynd: Antti Aimo-Koivisto - AP
Finnsku COVID-hundarnir stóðu sig með prýði fyrsta vinnudaginn.

Bretar búa að reynslu af malaríu-hundum

Það eru ekki bara Finnar og Þjóðverjar sem eru í óðaönn að finna nýjar leiðir til að nýta þefnæmi hunda. Það gæti meira að segja orðið að veruleika á Íslandi innan tíðar.

Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra hefur yfirumsjón með þjálfun og úttekt á öllum lögregluhundum landsins. Stefán Vagn Stefánsson lögreglustjóri segir að vel hafi verið fylgst með tilraunaverkefnum erlendis frá byrjun faraldursins. Sérstaklega hjá Bretum sem byrjuðu mjög snemma að þjálfa COVID-leitarhunda.

„Síðan hefur háskólinn í Helsinki farið af stað, ásamt ýmsum öðrum. En Bretarnir hafa reynsluna af þjálfun malaríu-hunda í Gambíu árið 2016. Það skilaði góðum árangri,” segir Stefán í samtali við RÚV. „Við höfum verið í samskiptum við lögregluna í London varðandi þjálfun á okkar hundum hingað til og nú fylgjumst við náið með þessum nýjustu vendingum.”

Búið að útvega útlenska hunda

Embættið setti sig í samband við Breta í vetur, um leið og fregnir tóku að berast af þessum óvænta anga baráttunnar við faraldurinn.

„Þeir komu okkur í samband við vísindastofnanirnar sem leiða vinnuna í Bretlandi [London School of Hygiene and Tropical Medicine og Bernham University] og við höfum fengið að fylgjast vel með þeirra rannsóknum,” segir Stefán. Þegar hundarnir eru farnir að skila nægilegra góðri vinnu vonast hann til þess að geta farið af stað með svipað verkefni á Íslandi.

„Við höfum alla þekkingu hér til að þjálfa upp þessa hunda, þannig að þá verður okkur ekkert að vanbúnaði,” segir hann. „Við erum búin að verða okkur úti um hunda erlendis, sem á eftir að fullþjálfa, og geta komið hingað til lands. Það yrði væntanlega í kringum tveggja mánaða ferli þar til hundarnir geta farið að þefa af og greina strokusýni.”

Að sögn Stefáns er vinna Breta að skila mjög góðum árangri. Þá hefur virkað betur að láta hundana þefa af sýnum en ekki fólki, til að lágmarka utanaðkomandi áreiti.

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi vestr
Tíu hundar starfa nú hjá íslensku lögreglunni.

Geta þefað af um 250 sýnum á klukkutíma

Flest lögregluembætti landsins eru með fíkniefnaleitarhunda á sínum snærum, auk sprengjuleitarhunda sem vinna hjá ríkislögreglustjóra. Stefán segir að mikilvægt sé að fá aðra hunda í vinnu við COVID-faraldurinn, ef af verður, enda gífurlega sérhæfð vinna í alla staði.

„Bresku hundarnir gátu tekið allt að 250 sýni á klukkutíma sem þýðir að tveir hundar gætu tekið 500 sýni,” segir hann. „Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum eru hundarnir að ná yfir 90 prósenta nákvæmni við greiningarnar. Svo væri auðvitað hægt, til að hámarka nákvæmnina, að láta tvo hunda lykta af sömu sýnunum.”

Bíða spennt eftir fregnum að utan

Stefán segir að lögreglan bíði spennt eftir endanlegum niðurstöðum frá Bretlandi og víðar, eins og Finnlandi og Þýskalandi.  

„Þetta er mjög spennandi verkefni og við erum mjög áhugasöm.” 

Hann undirstrikar að í vinnu hundanna gætu legið gríðarleg tækifæri ef niðurstöðurnar skila sínu. „En svo verður það auðvitað annarra en okkar að taka ákvörðun um hvort þetta verði að veruleika hér.”

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður