Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Víðir ekki með COVID-19 og laus úr sóttkví

24.09.2020 - 09:13
Upplýsingafundur Almannavarna 11. ágúst 2020
 Mynd: Lögreglan á höfuborgarsvæði - RÚV
„Já, gott að vera neikvæður,“ svarar Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn spurður hvort hann hafi fengið neikvætt svar úr kórónuveirusýni í gær. Víðir er nú laus úr sóttkví og stýrir vafalítið boðuðum upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.

Víðir hefur verið í sóttkví síðan á fimmtudag í síðustu viku eftir að hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling. „Tíminn sem ég dvaldi með þessum einstaklingi var það langur að hann sé innan þeirra marka að ég fari í sóttkví,“ sagði Víðir í samtali við fréttastofu um helgina.

Hann sagði að allra almennra sóttvarnaráðstafana hafi verið gætt og fjarlægðin hafi verið meiri en einn metri á milli.  „Út frá mati sem smitrakningarteymið gerir í hvert skipti þá telst ég hafa verið innan þessara marka og er þar af leiðandi kominn í sóttkví,“ segir Víðir.

Í samtali við fréttastofu í gær sagði Víðir að hann hefði aldrei fundið fyrir einkennum og var nokkuð viss um að hann hefði ekki smitast af kórónuveirunni. Hann sagðist samt sem áður hafa þurft að vera þolinmóður og bíða sýnatökunnar sem skar úr um það í gær að hann væri ekki smitaður.

Hann biður fólk um að óska ekki eftir í sýnatöku nema það sé með einkenni. Sé það einkennalaust og í sóttkví sé óþarfi að fara í sýnatöku. „Fólk verður bara að vera aðeins þolinmótt,“ sagði Víðir.