Vetrarfærð á fjallvegum og víða kuldalegt

24.09.2020 - 08:39
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Ofankoma hefur sett veg sitt á vegi víða um land, sérstaklega fjallvegi. Þar er víða vetrarfærð, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Gular viðvaranir vegna norðanhríðar og snjókomu verða í gildi á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi fram eftir morgni. Á Akureyri er kuldalegt um að litast eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni og var tekin í morgun.

Snjóþekja og éljagangur er á Öxnadalsheiði og á Þverárfjalli og hálka á Vatnsskarði. Þungfært er á Hrafnseyrarheiði og víða á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja, einkum á fjallvegum. Hálka og skafrenningur er á mörgum fjallvegum á Vesturlandi. Hálka, snjóþekja og krapi er víða á Norðausturlandi og Austurlandi, einkum á fjallvegum.

Nýjustu upplýsingar um færð á vegum hverju sinni má sjá á vef Vegagerðarinnar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi