Tvennt ákært fyrir vanvirðandi og ruddalega árás

Mynd með færslu
 Mynd: cc0 - pixabay
Tvennt hefur verið verið ákært fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og barnaverndarlögum en fólkið er sagt hafa ráðist á fyrrverandi sambýliskonu mannsins. Fram kemur í ákæru héraðssaksóknara að árásin hafi ruddaleg og vanvirðandi þar sem þrjú börn konunnar og sambýlismaður hafi horft upp á atlöguna.

Í ákærunni segir jafnframt að konan og sambýlismaðurinn fyrrverandi eigi saman tvö af börnunum þremur. Hann er því einnig ákærður fyrir brot í nánu sambandi. 

Ákærðu eru sögð hafa veist að konunni utandyra, tekið af henni spjaldtölvu og kýlt hana ítrekað í höfuð og líkama. Þeim er gefið að sök að hafa rifið í hár hennar og líkama, sparkað og stappað ítrekað á líkama hennar. Eitt þeirra er síðan sagt hafa sparkað að minnsta kosti einu sinni í höfuð konunnar.

Saksóknari telur að með þessari atlögu hafi ákærðu ógnað lífi, heilsu og velferð konunnar á alvarlegan hátt. Árásin hafi verið sérstaklega sársaukafull og meiðandi og vanvirðandi, ógnandi og ruddaleg gagnvart börnum konunnar sem hafi horft upp á atlöguna ásamt sambýlismanni hennar. 

Konan krefst þess að ákærðu verði dæmd til að greiða henni eina milljón í miskabætur. Ákæran hefur verið þingfest í Héraðsdómi Vesturlands.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi