Smitvarnir hertar í Ísrael

24.09.2020 - 16:17
epa08693313 People walk past the 'Hitromemut' sculpture by Israeli artist Menashe Kadishman that now shows with people wearing face masks at Habima Square in Tel Aviv, Israel, 24 September 2020. The initiative is part of the municipality's continued efforts to encourage the general public to wear protective face masks, reports state. Israel is on a full three-week lockdown during the Jewish holidays aimed to stem a new spike of Covid-19 coronavirus cases.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Ísrael ætla að herða aðgerðir til að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar. Útgöngubann sem tók gildi á föstudaginn hefur ekki skilað tilætluðum árangri.

Eftir átta klukkustunda ríkisstjórnarfund, sem lauk klukkan hálf sjö í morgun, var tilkynnt að meirihluta fyrirtækja í landinu yrði lokað, þar á meðal mörkuðum. Fleiri en tuttugu mega ekki safnast saman til bænahalds eða mótmæla utan dyra. Bænahúsum verður lokað, nema hvað þau verða opnuð þegar Yom Kippur, friðþægingarhátíð gyðinga, hefst á mánudag. 

Ákveðið verður síðar í dag hvort Ben Gurion alþjóðaflugvellinum í Tel Aviv verður lokað. Hinar nýju ráðstafanir taka í gildi á föstudag, svo fremi að ísraelska þingið samþykki þær.

Ísraelskir fjölmiðlar höfðu í dag eftir Benjamín Netanjahú forsætisráðherra að grípa yrði til hertra aðgerða gegn kórónuveirunni til að vernda líf borgaranna. Þær væru einnig nauðsynlegar til að styrkja efnahaginn. Þeir hefðu rangt fyrir sér sem héldu að lífið gæti gengið sinn vanagang meðan kórónuveiran grasserar og smit færast stöðugt í aukana þrátt fyrir lokanir sem þegar hefur verið gripið til. 

Stefnt er að því að útgöngubannið í Ísrael standi til föstudagsins 9. október. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi