Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skorar á börn í sóttkví að vera dugleg að lesa

24.09.2020 - 16:07
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, hvatti í dag ungt fólk sem er í sóttkví til þess að nýta tímann vel. Mikilvægt væri að læra, en einnig lesa eitthvað sem ekki tengist skólanum.

Kórónuveirufaraldurinn hefur sett mark sitt á grunnskólastarf. Til dæmis eiga nemendur í 7. bekk að þreyta samræmd próf þessa dagana, en af 4.300 nemendum eru 220 í sóttkví. 

„Við höfum af því áhyggjur hvað er mikið af ungmennum og sérstaklega grunnskólabörnum sem eru komin í sóttkví núna. Við vitum að það er ekki auðvelt að vera í sóttkví, ég er búinn að prófa það sjálfur. En við vitum líka að þau eru að standa sig vel og eru að fylgja leiðbeiningunum,“ sagði Víðir á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Þá beindi hann hvatningarorðum til unga fólksins.

„Til ykkar krakkar sem eru heima: Nýtið tímann vel að læra og lesa. Ég skora á ykkur að setja ykkur markmið að lesa núna í sóttkvínni eina bók sem tengist ekki skólanum. Það gerir ekkert til þó þið séuð búin að lesa hana áður, veljiði bara góða bók og lesið hana,“ sagði Víðir Reynisson.