Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skilaboðin þau að líf heimilismanna skipti ekki máli

24.09.2020 - 07:34
Gísli Páll Pálsson forstjóri hjúkrunarheimilisins Markar
 Mynd: RÚV
Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, fer hörðum orðum um viðbrögð Sjúkratrygginga Íslands og heilbrigðisráðuneytisins við kostnaðarbeiðnum hjúkrunarheimila vegna viðbragða í COVID-19 faraldrinum. Ríkið hyggist ekki greiða daggjöld vegna vannýttra plássa sem haldið var eftir svo hægt yrði að opna sérstakar COVID-19 deildir ef smit bærist inn á hjúkrunarheimilin.

Þetta segir Gísli Páll vera skýr skilaboð frá heilbrigðisráðuneytinu um að líf heimilisfólks skipti ekki máli. 

Gísli Páll ræðir fjárhagsstöðu hjúkrunarheimila og viðbrögð þeirra við COVID-19 faraldrinum í vor í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að hjúkrunarheimilin hafi ekki tekið inn nýja einstaklinga, meðal annars til að eiga pláss fyrir COVID-deild ef smit kæmi upp. Þetta verður til þess að heimilin fá ekki greidd daggjöld frá ríkinu. Samkvæmt nýlegu svari frá Sjúkratryggingum, sem Gísli Páll segir að byggist á svari heilbrigðisráðuneytisins, verða daggjöld vegna vannýttu plássanna ekki greidd að svo stöddu en staðan skoðuð upp á nýtt í upphafi næsta árs.

Tekjumissir hjúkrunarheimila vegna vannýttra plássa nemur 100 til 200 milljónum króna, segir Gísli Páll í grein sinni. Hann segir að það séu verulegar fjárhæðir fyrir heimili sem séu nú þegar flest rekin með halla. Því sé hætta á að hjúkrunarheimili verði ekki búin með sama hætti undir seinni bylgjur faraldursins og allir þeir sem smitast sendir beinustu leið á Landspítalann.