
Skilaboðin þau að líf heimilismanna skipti ekki máli
Þetta segir Gísli Páll vera skýr skilaboð frá heilbrigðisráðuneytinu um að líf heimilisfólks skipti ekki máli.
Gísli Páll ræðir fjárhagsstöðu hjúkrunarheimila og viðbrögð þeirra við COVID-19 faraldrinum í vor í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að hjúkrunarheimilin hafi ekki tekið inn nýja einstaklinga, meðal annars til að eiga pláss fyrir COVID-deild ef smit kæmi upp. Þetta verður til þess að heimilin fá ekki greidd daggjöld frá ríkinu. Samkvæmt nýlegu svari frá Sjúkratryggingum, sem Gísli Páll segir að byggist á svari heilbrigðisráðuneytisins, verða daggjöld vegna vannýttu plássanna ekki greidd að svo stöddu en staðan skoðuð upp á nýtt í upphafi næsta árs.
Tekjumissir hjúkrunarheimila vegna vannýttra plássa nemur 100 til 200 milljónum króna, segir Gísli Páll í grein sinni. Hann segir að það séu verulegar fjárhæðir fyrir heimili sem séu nú þegar flest rekin með halla. Því sé hætta á að hjúkrunarheimili verði ekki búin með sama hætti undir seinni bylgjur faraldursins og allir þeir sem smitast sendir beinustu leið á Landspítalann.